Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

17. október 2025

Verkefnin í september

Talsverð fækkun er á skráðum málum til úrvinnslu hjá embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra milli mánaða, rúmlega 600 mál voru skráð hjá embættinu í september samanborið við rúmlega 800 í ágúst. Hafa ber þó í huga að óvenju mörg mál voru til úrvinnslu í ágústmánuði.

Talsverð fækkun er á skráðum málum til úrvinnslu hjá embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra milli mánaða, rúmlega 600 mál voru skráð hjá embættinu í september samanborið við rúmlega 800 í ágúst. Hafa ber þó í huga að óvenju mörg mál voru til úrvinnslu í ágústmánuði.

Fjöldi þeirra mála er lögregla var til aðstoðar við borgarana eða opinbera aðila er áþekkur milli mánaða, alls voru 27 slík mál til úrvinnslu í september. Um þriðjungur þeirra mála voru vegna aðstoðar við borgarana, þau verkefni voru ansi fjölbreytt m.a. var lögregla til aðstoðar við lokun vegna búfjárrekstra, nokkuð var um að ölvuðum aðilum væri ekið heim. Þá var lögregla einnig til aðstoðar vegna bilaðra bifreiða og fleira. Skráð voru 20 mál þar sem lögregla var til aðstoðar við opinbera aðila, í flestum tilvikum vegna staðfestingar skilríkja en einnig til aðstoðar við heilbrigðis- og félagsmálayfirvöld.

September einkenndist af réttum og tilheyrandi skemmtunum, þar á meðal Laufskálaréttarballinu, sem fór afar vel fram. Löggæsla á svæðinu var skipulögð í góðu samstarfi við sveitarfélög, barnaverndarnefndir og sérsveit Ríkislögreglustjóra, sem veitti embættinu mikilvæga aðstoð við framkvæmd eftirlits og öryggisgæslu. Virkt eftirlit var með ölvun ungmenna undir lögaldri, og voru fjölmörg ungmenni látin blása í áfengismæla og reyndust nokkur hluti þeirra undir áhrifum áfengis. Foreldrum var gert viðvart og beðin um að sækja börnin. Einnig voru skemmtanir í Ketilási og Víðihlíð eftir réttir þar sem lögregla var venju samkvæmt með eftirlit.

Nokkuð hefur verið um unglingasamkvæmi í upphafi mánaðarins þar sem eftirlit lögreglu og barnaverndar hefur verið virkt. Þá hefur einnig verið mikið samtal og samvinna við unglinga, FNV og foreldra vegna þessa.

Eins og oft áður barst fjöldi tilkynninga um lausagöngu hrossa, en í ár voru fleiri tilkynningar um kálfa og naut sem höfðu ákveðið að kanna heiminn á eigin spýtur. Eitt mál varðar hundsbit, sem nú er til rannsóknar. Einnig urðu færri ákeyrslur á fé.

Um 80 mál varða afskipti af útlendingum og eru þau langflest vegna umferðartengdra mála. Lang flestum vegna hraðakstur en einnig vegna réttindaleysis við akstur og þar sem grunur er um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og lyfja.

Mál er varða fjársvik eru alltaf að aukast en rúmlega 5 tilkynningar um fjársvik voru tilkynntar til lögreglu. Við minnum á að betra er að hafa varann á, og ef eitthvað hljómar of gott til að vera satt, þá líklegra er það of gott til að vera satt.

Umferðartengd mál voru hátt í 300 í september mánuði, þar af 12 mál vegna umferðaslysa. Umferðarslysin voru í flestum tilvikum minniháttar óhöpp en eitthvað um útafakstur og í einu tilviki er ökumaður grunaður að hafa verið undir áhrifum áfengis. 3 mál eru skráð hjá lögreglu þar sem ökumenn eru grunaðir um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og lyfja. Þá voru 15 mál þar sem bifreiðum var lagt ólöglega.

Alls voru 160 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í september. Rúmlega helmingur þeirra ökumanna hafa annað ríkisfang en íslenskt, og flest afskipti eru á Norðurlandsvegi. Langflestir óku á 115-130 km/klst. Við minnum alla á að aka varlega – það er engin ástæða til að flýta sér þegar útsýnið er svona fallegt!

Þá var tilkynnt um eld í rútu, hjólhýsi og á heimili, eignaspjöll, húsbrot, líkamsárás, hótanir, nokkur hestaslys og eitt flugslys. Fjallað hefur verið um flugslysið áður í fjölmiðlum en flugvél hlekktist á í lendingu á Blönduósflugvelli.

Að öllu samanlögðu var september tiltölulega friðsæll mánuður á Norðurlandi vestra – þó verkefnin hafi eins og alltaf verið fjölbreytt og krefjandi. Við þökkum öllum sem sýna okkur samvinnu og virðingu í starfi – það gerir gæsluna okkar mun léttari og öruggari fyrir alla