20. nóvember 2024
20. nóvember 2024
Veltek - framtíðartækifæri í heilbrigðis- og velferðartækni
Veltek, heilbrigðis- og velferðartækniklasi Norðurlands, hélt árangursríkan fund miðvikudaginn 13. nóvember síðastliðinn undir yfirskriftinni „Hvar liggja tækifærin?“. Fundurinn var vel sóttur af hagaðilum klasans og gestum sem lögðu sitt af mörkum í uppbyggilegum umræðum um framtíð þjónustu og hugsanlega innleiðingu á heilbrigðis- og velferðarlausnum.
Á fundinum var farið yfir sögu Veltek og hvernig klasinn þjónar sem vettvangur fyrir tengslanet og samstarf, bæði innanlands og á alþjóðlegum vettvangi. Klasinn hefur það markmið að stuðla að nýsköpun og bættu aðgengi að lausnum í heilbrigðis- og velferðarþjónustu.
Í stjórn Veltek eru:
Erla Björnsdóttir framkvæmdastjóri mannauðssviðs SAk.
Árni Kár Torfason forstöðumaður upplýsingatæknideildar HSN.
Þóra Sif Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Heilsuverndar.
Björg S. Anna Þórðardóttir, rannsakandi við Oslo Met háskólann í Noregi og Háskólinn á Akureyri.
Elva Gunnlaugsdóttir, verkefnastjóri SSNE.
Framtíðarsýn Hátinds 60+
Verkefnastjóri Hátinds 60+ flutti erindi þar sem áhersla var lögð á nýjar leiðir í þjónustubreytingum við eldra fólk í Fjallabyggð. Þar kom fram hvernig verkefnið leggur áherslu á að bæta þjónustu við eldri borgara með nýstárlegum lausnum og meiri áherslu á samstarf og samþættingu þjónustu.
Verkefnið Integrated Health & Care, á vegum Nordic welfare Center, var einnig kynnt, en þar er lögð áhersla á að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu þvert á landamæri. Jafnframt var greint frá þátttöku Hátinds og Veltek í evrópsku samstarfsverkefni með Svíþjóð og Írlandi, sem opnar dyr fyrir enn frekara alþjóðlegt samstarf og þróun.
Mikilvægi samráðs og samstarfs
Fundurinn leiddi til líflegra umræðna í vinnustofum þar sem áhersla var lögð á þjónustubreytingar, lausnamiðaða hugsun og framtíðaráætlanir í innleiðingu nýrra lausna. Líst var yfir mikilvægi þess að fundir líkt og Veltek stóð fyrir verði reglulegri til að efla samvinnu og skapa ný tækifæri.
Veltek hefur sannað gildi sitt sem lykilvettvangur fyrir tengingu hagaðila innanlands og erlendis og var fundurinn enn ein staðfesting á því hvernig klasinn stuðlar að framförum í heilbrigðis- og velferðartækni.