3. desember 2025
3. desember 2025
Vegna umræðu um endurhæfingarþjónustu og fráflæðisvanda SAk
Frá upphafi heimsfaraldursins 2020 hefur þurft að skerða endurhæfingarþjónustu á Kristnesi, einkum vegna manneklu. Á sama tíma hefur vaxandi fráflæðisvandi á bráðadeildum SAk leitt til þess að sjúklingum hefur í auknum mæli verið beint í þjónustu endurhæfingardeildar á Kristnesi.

Í haust var ljóst að horfa þyrfti til breytinga á þjónustu vegna mönnunarvandans. Niðurstaðan var að hætta 7 daga endurhæfingu á Kristnesi og styrkja í staðinn 5 daga- og dagdeildarþjónustu fyrir fólk á öllum aldri. Frá því að ákvörðunin lá fyrir hefur verið unnið að fjölbreyttum lausnum s.s. að stofna sérhæft endurhæfingarteymi nær bráðadeildum og var í því skyni ákveðið að fjölga stöðugildum sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, félagsráðgjafa og talmeinafræðings. Búið er að stofna öldrunarteymi sem hefur það að markmiði að leggja aukna áherslu á heildrænt öldrunarmat fyrir eldri einstaklinga og létta á mönnun lyflækna. Þá hefur samstarfs verið leitað m.a. við LSH Grensás, HSN, HSA, Heilsuvernd hjúkrunarheimili og sjúkrahótel.
Verkefnið er hins vegar afar umfangsmikið og flókið og mikið þarf til þess að settu markmiði sé náð – líkt og starfsfólk á lyflækningadeild hefur bent á í opnu bréfi sínu. Sjúkrahúsið stendur frammi fyrir mörgum áskorunum. Húsnæði SAk á Eyrarlandsvegi er takmarkað en unnið er að endurbótum á um 4000 fm2 vegna rakaskemmda. Skortur á hjúkrunarrýmum á Akureyri hamlar einnig nauðsynlegum lausnum, enda hefur fjölgun þeirra tafist og rými jafnvel fallið út. Nýtt hjúkrunarheimili og nýbygging við SAk verða ekki tilbúin fyrr en árið 2028 sem eykur fráflæðivandann.
Langtímalausnir liggja í auknum hjúkrunar- og endurhæfingarrýmum, bættu húsnæði og fjölgun sérhæfðs starfsfólks. Þar til ásættanleg langtímalausn liggur fyrir þarf að leita tímabundinna leiða til að brúa bilið. Á þeim tíma er nauðsynlegt að byggja á samstarfi og samvinnu og það augljósa forgangsverkefni er að tryggja öryggi sjúklinga.