Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

10. október 2025

Vefur lögreglunnar á Ísland.is

Vefur lögreglu og ríkislögreglustjóra er nú kominn á Ísland.is en slóðin helst þó óbreytt frá því sem áður var, www.logreglan.is.

Verkefnið er liður í stafrænni vegferð lögreglunnar sem miðar að því að að bæta aðgengi og heildarþjónustu við notendur.

Rannveig Þórisdóttir, sviðsstjóri þjónustusviðs hjá embætti ríkislögreglustjóra:

„Undanfarin ár höfum við unnið markvisst að stafrænni vegferð lögreglunnar og þar hefur margt áunnist sem auðveldar líf bæði borgaranna og starfsfólks. Aukin notendamiðuð þjónusta með stafrænum ferlum er ekki aðeins tæknilegt úrlausnarefni heldur liður í að efla traust og gagnsæi í störfum okkar.“

Birna Íris Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands:

„Við fögnum því að fá lögregluna inn á vef Ísland.is. Við sjáum góð tækifæri í samræmdari upplýsingagjöf og samvinnu á opinberra aðila þar sem lögreglan er í lykilhlutverki – til dæmis varðandi sameiginleg verkefni þeirra og sýslumanna, Samgöngustofu og dómstólanna.“

Vefir héraðsaksóknara, ríkissaksóknara og sýslumanna eru þegar komnir undir hatt Ísland.is, einnig er unnið að nýjum vef fyrir öll dómstigin og dómstólasýsluna.

Efni á nýjum vef lögreglunnar hefur verið endurskoðað og áhersla lögð á greiða og gagnlega miðlun til fjölbreyttra notenda. Verkefnið er unnið í samstarfi við Stafrænt Ísland sem hefur það hlutverk að styðja við stafræna vegferð opinberra stofnana. Lögreglan hefur þegar innleitt Stafrænt pósthólf, Innskráningarþjónustu, Umsóknarkerfi, Mínar síður, Strauminn og Ísland.is appið.