23. september 2025
23. september 2025
Vástig helst óbreytt
Embætti ríkislögreglustjóra hefur í dag unnið að því að afla upplýsinga frá lögregluyfirvöldum á Norðurlöndum vegna frétta um flug ómannaðra flygilda við Kastrup flugvöll í Kaupmannahöfn og við Gardemoen flugvöll við Osló í gærkvöldi.

Ríkislögreglustjóri kallaði jafnframt saman Vástigsnefnd flugverndar til að fara yfir þær upplýsingar sem nú liggja fyrir og meta hvort breyta þurfi vástigi.
Niðurstaða fundarins var sú að ekki er talin ástæða til að breyta vástigi að svo stöddu en embættið mun áfram fylgjast grannt með þróun mála og endurskoða matið þyki ástæða til.
Í ljósi aukinnar ógnar þykir nefndinni mikilvægt að geta til að greina ómönnuð flygildi verði efld verulega og að lögregla byggi upp meiri getu til að bregðast við slíkum ógnum.
Í Vástigsnefnd flugverndar ríkislögreglustjóra sitja fulltrúar frá ISAVIA, Samgöngustofu, flugrekstraraðila og Keflavíkurflugvallar.
Á fundinum sátu jafnframt fulltrúar Landhelgisgæslunnar og sérsveitar en þeir sinna tæknilegri löggæslu sem rekur drónaeftirlit og drónavarnabúnað.