Fara beint í efnið

21. nóvember 2023

Varðandi gildistíma haffærisskírteinis

Með nýrri skipaskrá, Skútunni, var tekið upp það verklag, að gefa út haffærisskírteini með fullum gildistíma þótt niðurstaða skoðunar væri dæming 2.

Samgöngustofa - siglingar

Samgöngustofa vill vekja athygli á því, að við gangsetningu á nýrri skipaskrá, Skútunni var tekið upp það verklag, að gefa út haffærisskírteini með fullum gildistíma þrátt fyrir niðurstaða skoðunar væri dæming 2.

Dæming 0 í skoðun, felur í sér að engin athugasemd hefur verið skráð á skipið: Skipið fær útgefið haffærisskírteini með fullum gildistíma.

Dæming 1 í skoðun, felur í sér að um minniháttar athugasemd var skráð á skipið, en að ekki er þörf á endurskoðun.  Útgerð ber ábyrgð á að lagfæra athugasemdina: Skipið fær útgefið haffærisskírteini með fullum gildistíma.

Dæming 2 í skoðun, felur í sér að athugasemd var skráð á skipið.  Frestur til lagfæringar getur mest orðið 3 mánuðir og endurskoðun er sett á dagskrá fyrir skipið þessu tengt.  Framkvæma þarf lagfæringu og kalla eftir endurskoðun áður en frestur rennur út: Skipið fær þrátt fyrir þetta útgefið haffærisskírteini með fullum gildistíma.  Ef lagfæring hefur ekki farið fram innan frests og endurskoðun verið framkvæmd af skoðunaraðila því til staðfestingar fellur haffærisskírteini skipsins úr gildi.  Þetta felur þá í sér að skipið telst óhaffært og ekki er hægt að lögskrá á skipið.

Dæming 3 í skoðun, felur í sér að skip telst vera óhaffært og getur ekki fengið útgefið haffærisskírteini.

Breytingin frá því sem áður var felst í því, að gildistími haffærisskírteinis er ekki takmarkaður ef niðurstaða skoðunar er dæming 2.  Hins vegar, ef endurskoðun er ekki framkvæmd innan tímamarka (mest 3 mánuðir) þá fellur haffærisskírteini skipsins úr gildi.

Við útgáfu á haffærisskírteini kemur fram í tölvupósti frá Samgöngustofu til útgerðar ef endurskoðun er á dagskrá og þá hvenær haffærisskírteini fellur úr gildi.

Kostirnir við þetta eru, að útgerð þarf aðeins að sækja einu sinni um haffærisskírteini milli reglubundinna skoðana og greiðir einu sinni fyrir útgáfu haffærisskírteinis yfir árið.

Sjá upplýsingar um fyrirkomulag skoðana.