19. september 2022
19. september 2022
Útlendingastofnun flytur vef sinn til Ísland.is
Betri þjónusta með bættu aðgengi og skýrari leiðbeiningum.
Útlendingastofnun hefur í samvinnu við Stafrænt Ísland fært vefsíðu sína yfir á Ísland.is. Vefur stofnunarinnar er þar með orðinn aðgengilegur um hina sameiginlegu upplýsinga- og þjónustugátt opinberra aðila á Íslandi en efni vefsins var jafnframt yfirfarið út frá þörfum notenda og endurskrifað að hluta við þetta tilefni. Markmið breytinganna er að bæta þjónustu við notendur vefsins sem eru fyrst og fremst umsækjendur um dvalarleyfi, áritanir og íslenskan ríkisborgararétt.
Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar:
Nýr vefur Útlendingastofnunar undir merkjum Ísland.is er enn eitt skrefið sem stofnunin tekur til þess að bæta þjónustu sína. Samstarfið við Stafrænt Ísland hefur verið farsælt en er hvergi nærri lokið því næst á dagskrá er innleiðing spjallmennis á vef stofnunarinnar. Þá hefur stofnunin tekið í gagnið stafrænar umsóknir um íslenskan ríkisborgararétt og endurnýjun dvalarleyfa í samvinnu við Stafrænt Ísland og fleiri stafrænar umsóknir eru í undirbúningi.
Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands:
Útlendingastofnun er mikill liðsstyrkur fyrir Ísland.is sem mun tryggja betri upplýsingagjöf og þjónustu fjölbreytts hóps. Samstarfið hefur verið virkilega gott og við hlökkum til að styðja þau í enn frekari stafrænni þróun.
Á nýja vefnum er einnig boðið upp á netspjall. Spjallið fór í loftið í byrjun apríl á sérstökum upplýsingavef fyrir fólk á flótta frá Úkraínu en þar er nú svarað spurningum sem varða alla þjónustu Útlendingastofnunar. Netspjallið er opið virka daga milli klukkan 10:00 og 14:00 en utan þess tíma er hægt að senda inn fyrirspurnir gegnum spjallið sem svarað verður með tölvupósti.