23. maí 2023
23. maí 2023
Uppgjör fyrir árið 2022 liggur fyrir
Árlegur endurreikningur vegna greiðslna frá TR liggur nú fyrir á Mínum síðum TR og á island.is fyrir árið 2022. Þau sem fengu of lágar greiðslur árið 2022 fá endurgreitt frá TR í sérstakri greiðslu 1. júní nk.
Um 74% lífeyrisþega, eða um 49 þúsund einstaklingar, fengu ofgreitt og þurfa að endurgreiða í samræmi við það, frá og með 1. september nk. Meðaltal þeirra sem skulda er tæplega 164.000 kr.
Rúmlega 17%, eða um 12 þúsund einstaklingar, eiga inneign. Lífeyrisþegar sem eiga inneign eiga að meðaltali rúmlega 215.000 kr.
Töluvert fleiri lífeyrisþegar fengu ofgreitt árið 2022 en árin á undan eða 74% miðað við 51% árið 2021. Aukinn fjöldi þeirra sem fengu ofgreitt er einkum tilkominn vegna áhrifa af háu verðbólgu- og vaxtastigi sem hefur haft talsverð áhrif á bæði lífeyrissjóðsgreiðslur og fjármagnstekjur.
Af hverju stafar misræmið?
Greiðslur frá Tryggingastofnun byggja á tekjuáætlunum lífeyrisþega, þ.e. hvað þeir telja að þeir muni hafa í tekjur á komandi ári. Endurreikningurinn byggir á tekjuupplýsingum úr staðfestum skattframtölum fyrir árið 2022. Þessi samanburður leiðir í ljós hvort lífeyrisþegi hafi fengið greitt í samræmi við réttindi sín, eða hvort frávik valdi því að einstaklingur hafi fengið van- eða ofgreitt á árinu.
Eðlilegt er að frávik á greiðslum komi fram við endurreikning þar sem erfitt getur reynst að áætla tekjur fram í tímann. Rétt er að benda á að tiltölulega litlar breytingar á tekjum geta orsakað frávik frá greiðslum við endurreikning. Því leggur TR áherslu á mikilvægi þess að lífeyrisþegar uppfæri tekjuáætlun sína sem fyrst ef breytingar verða á upphæðum tekna.
TR leitar leiða til að draga úr misræmi
Þrátt fyrir að lífeyrisþegar beri ábyrgð á að tekjuskráning sé sem réttust þá er starfsfólk TR stöðugt að leita leiða til þess að draga úr því misræmi sem getur orðið. Þannig er unnið að betra upplýsingaflæði milli TR og lífeyrissjóða sem og við skattyfirvölda. Þá hyggjumst við leggja enn meiri áherslu á að hvetja og upplýsa lífeyrisþega um mikilvægi þess að breyta strax tekjuáætlun á Mínum síðum TR ef tekjur breytast. Með því er hægt að draga úr of- eða vangreiðslum.
Loks mun TR kynna betur greiðslufyrirkomulag, líkt og eina greiðslu á ári, sem hentar vel þeim lífeyrisþegum sem eru að fá tiltölulega lágar greiðslur mánaðarlega.
Úrræði vegna niðurstöðu uppgjörs og innheimtu krafna
Ef lífeyrisþegi hefur athugasemdir við niðurstöðu endurreiknings er hægt að óska eftir rökstuðningi, andmæla niðurstöðunni eða hafa samband við Skattinn vegna skattbreytinga. Nánari upplýsingar um úrræðin má finna hér.
Almenna reglan er að kröfur beri að endurgreiða á 12 mánuðum en sérstaklega er bent á að ef það reynist íþyngjandi er ávallt hægt að hafa samband við TR og semja um greiðslur til lengri tíma. Nánari upplýsingar um úrræði vegna innheimtu má nálgast hér.
Rafrænar þjónustuleiðir
Lífeyrisþegar eru hvattir til að skoða bréf um niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs á Mínum síðum TR og að nýta sér rafrænar þjónustuleiðir við fyrirspurnir og önnur erindi. Einnig er hægt að skoða bréfið í pósthólfinu á island.is. Næstu daga getur orðið töluvert álag á tr.is og á Mínum síðum TR sem getur valdið töfum á aðgengi og biðjumst við velvirðingar á þeim óþægindum sem það kann að valda. Við biðjum viðskiptavini að sýna biðlund. Við höfum fjölgað í símsvörun og sérstakt innval er vegna uppgjörsins í símaþjónustu sem er opin kl. 11.00 - 15.00 virka daga.