23. nóvember 2020
23. nóvember 2020
Umsókn um stafrænt vinnuvélaskírteini og ADR skírteini
Ný stafræn vinnuvélaskírteini voru tekin í gagnið í dag. Þau eru fyrir alla sem eru með íslensk ADR-eða vinnuvélaréttindi og eiga snjallsíma, en yfir 35.000 manns eru með gild vinnuvélaréttindi hér á landi.
Á myndinni eru þau Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, Óskar Sigvaldason og Ásmundur Einar Daðason við afhendingu fyrsta starfræna vinnuvélaskírteinisins.
Skírteinin sanna fyrir lögreglu að stjórnandi ökutækis sé með gild ADR- eða vinnuvélaréttindi. Í véla- og fyrirtækjaeftirliti Vinnueftirlitsins er jafnframt óskað eftir því að umræddum skírteinum sé framvísað, en á þeim koma fram sömu upplýsingar og á hefðbundnum ADR- og vinnuvélaskírteinum.
Skírteinin, sem gilda aðeins á Íslandi, eru fyrir notendur Android og iOS-stýrikerfa en eingöngu er hægt að setja þau upp á einu símtæki í einu. Ef þau er sett upp í öðrum síma afvirkjast þau í tækinu sem þau voru í áður.
Skírteinin virka eins og rafrænu ökuskírteinin sem tekin voru í gagnið 1. júlí síðastliðinn og hafa bæði framhlið og bakhlið. Á framhlið vinnuvélaskírteinanna er að finna persónuupplýsingar skírteinishafa og útgáfudag en á bakhliðinni koma fram þeir réttindaflokkar sem viðkomandi er með og gildistími þeirra. Á framhlið ADR-réttindanna, sem eru fyrir þá sem flytja hættulegan farm, er að finna sömu upplýsingar og á vinnuvélaskírteinunum ásamt gildistíma en á bakhliðinni koma fram þeir réttindaflokkar sem viðkomandi er með.
„Það eru gríðarleg þægindi fólgin í því fyrir fólk að geta haft ökuskírteini og vinnuvélaréttindi á einum stað og í því tæki sem við skiljum sjaldnast við okkur, símanum. Í þessu felst ekki einungis aukið hagræði fyrir notendur heldur einnig aukin hagkvæmni fyrir ríkið,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
„Innleiðing stafrænna vinnuvélaskírteina og ADR-réttinda er mikilvægt skref í stafrænni vegferð Vinnueftirlitsins þar sem leitað er leiða til að ná betri árangri með hagnýtingu upplýsingatækninnar. Við vonum svo sannarlega að sem flestir handhafar þessara réttinda nýti sér þessa viðbót við stafræna þjónustu hins opinbera og að hún komi að góðu gagni,“ segir Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins.
„Stafrænu ökuskírteinin ruddu leiðina fyrir fjölmörg skírteini hins opinbera og eru vinnuvélaskírteinin eðlilegt næsta skref. Það er ljóst að eftirspurnin er mikil frá almenningi eftir því að geta haft öll réttindi stafræn á einum stað í símanum,“ segir Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands.
„Þetta er mikið framfaraskref fyrir atvinnubílstjóra og vinnuvélaeigendur hér á landi. Það auðveldar störf jarðvirkja að hafa stafræn vinnuvélaskírteini á sínum stað í símanum þegar þeir þurfa jafnvel að fara á milli nokkurra vinnuvéla yfir daginn. Það er gott að vita af því að réttindin eru alltaf með í för ef eitthvað kemur upp á. Nú köllum við bara eftir því að fleiri rafræn umbótaverkefni verði að veruleika sem miða öll að því að auðvelda okkur lífið,“ segir Óskar Sigvaldason, formaður Félags vinnuvélaeigenda og framkvæmdastjóri Borgarverks.
Hvernig er sótt um og nánari upplýsingar
Sótt er um stafræn vinnuvélaskírteini á vefnum þar sem notendur auðkenna sig með rafrænum skilríkjum. Með samþykki notenda fer sjálfvirkt umsóknarferli í gang og samstundis birtist tengill til að sækja skírteinið í símann.
Notendum Android-síma er bent á að sækja veski (e. Wallets) í símann áður en stafrænu vinnuvélaskírteini er hlaðið niður. Það er þegar til staðar í iPhone símum.
Þeim sem eru með A, B, D og P réttindi er bent á að kanna útgáfudag skírteinis og gildistíma réttinda á bakhlið. Ef meira en tíu ár eru liðin frá útgáfu skírteinis gæti verið að réttindin séu útrunnin. Þá þarf að sækja um endurnýjun áður en stafrænu skírteinin eru sótt.
Gott samstarf
Verkefnastofan Stafrænt Ísland vann tæknilausn fyrir stafrænu vinnuvélaskírteinin í samstarfi við Vinnueftirlitið og félagsmálaráðuneytið en stofan vann samskonar lausn fyrir stafrænu ökuskírteinin í sumar.