Fara beint í efnið

24. nóvember 2020

Umsókn um kynningar- og fræðslustyrki

Félagasamtök geta nú sótt um kynningar- og fræðslustyrk til utanríkisráðuneytisins hér á Ísland.is. Umsóknarfrestur er til miðnættis 4. janúar.

heimsmarkmið

Styrkveitingar til félagasamtaka í þróunarsamvinnu

Hafa þín félagasamtök áhuga á að leggja sitt af mörkum til að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna? Undir hatti samstarfs við félagasamtök bíður utanríkisráðuneytið uppá styrkveitingar til þriggja tegunda verkefna:

  • Þróunarsamvinnuverkefna

  • Mannúðaraðstoðar

  • Kynningar- og fræðsluverkefna

Auglýst er reglulega eftir umsóknum um styrki vegna samstarfsverkefna af þessu tagi.

Um framlögin

Markmið með samstarfi við félagasamtök og fyrirtæki í þróunarsamvinnu er að draga úr fátækt, bregðast við neyðarástandi og styðja við atvinnusköpun og sjálfbæran vöxt í þróunarríkjum. Þátttaka og samstarf ólíkra hagsmunaaðila er grundvöllur þess að hægt sé að ná heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun á fullnægjandi hátt.

Boðið er uppá styrki til mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnuverkefna, þ.m.t. styttri verkefna, langtíma verkefna og nýliðaverkefna. Einnig geta félög sótt um kynningar- og fræðslustyrki. Nánari upplýsingar um umsóknir má finna neðst á síðunni.

Veittir eru styrkir til verkefna sem koma til framkvæmdar á lista Þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD DAC) um viðtökulönd opinberrar þróunaraðstoðar, með áherslu á lág- og lágmillitekjuríki auk smáeyþróunarríkja. Kynningar- og fræðsluverkefni skulu framkvæmd á Íslandi.

Styrkhæfir aðilar

Styrkveitingar eru takmarkaðar við íslensk félagasamtök og þurfa þau að uppfylla eftirtalin skilyrði:

  • Vera skráð í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra sem félagasamtök, skv. rekstrarformi eða starfsgreinaflokkun, eða vera skráð sem félag til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri skv. lögum nr. 119/2019,

  • ekki vera rekin í hagnaðarskyni (e. non-profit),

  • hafa sett sér lög og starfandi stjórn,

  • félagsmenn, styrktaraðilar eða stuðningsaðilar séu minnst 30 talsins,

  • hafa lagt fram staðfestan ársreikning.

Umsækjendur þurfa að uppfylla kröfur Ríkisendurskoðunar um meðferð og vörslu fjármuna á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar.

Umsóknarferli

Opið er fyrir umsóknir um styrki til kynningar- og fræðsluverkefna frá 23. nóvember – 4. janúar. Umsóknin er rafræn á Ísland.is.

Næsta umsóknarferli fyrir þróunarsamvinnustyrki og styrki til mannúðaraðstoðar er áætlað í byrjun árs 2021. Umsóknarfrestur er að öllu jafna 6 vikur frá upphafsdegi umsóknarferils.

Utanríkisráðherra úthlutar styrkjum að fengnu áliti matshóps skipuðum þremur sérfræðingum.

Umsókn um kynningar- og fræðslustyrk

Eyðublöð og önnur gögn

Eyðublöð og önnur viðeigandi gögn fyrir hvern flokk fyrir sig má nálgast á vef Stjórnarráðsins. Athygli er vakin á því að matsblöð og verklagsreglur eru mismunandi fyrir hvern málaflokk.