18. ágúst 2025
18. ágúst 2025
Umferð þyngist á álagstímum
Þessa vikuna er skólastarfið að hefjast á nýjan leik eftir sumarleyfi og margir eru örugglega spenntir að setjast aftur á skólabekk og hitta vinina.

Lögreglan minnir ökumenn á að aka varlega, ekki síst í námunda við skóla enda margir þar á ferli, m.a. nýir vegfarendur sem eru að fara að hefja skólagöngu. Á þessum árstíma er líka viðbúið að umferð þyngist á álagstímum og kannski hafið þið þegar fundið fyrir því. Eru ökumenn beðnir um að hafa þetta í huga og gera ráð fyrir að ferðatími, sérstaklega á morgnana og síðdegis, kunni að lengjast frá því sem verið hefur í sumar. Gott ráð til að komast hjá mestu umferðarösinni er að leggja fyrr af stað en ella eða síðar eftir atvikum, ef því verður við komið.
Athygli er líka vakin á bættri þjónustu Strætó á mörgum leiðum, en í því felst aukin tíðni ferða bæði á annatíma og utan hans og einnig verður lengri þjónustutími á kvöldin. Sjá nánar á heimasíðu Strætó.