21. maí 2024
21. maí 2024
Umbreyting opinberrar þjónustu með gervigreind rædd á NHO24
Þann 15. maí var árlegi Nýsköpunardagur hins opinbera haldinn á Hilton Nordica fyrir fullum sal áhugafólks um opinbera nýsköpun.
Áhersla á stefnumörkun og aðgerðamiðaðar framfarir við að nýta gervigreind er það sem þarf til að bæta opinbera þjónustu á Íslandi.
Umræðuefni dagsins var opinber hagnýting gervigreindar. Rætt var um þörfina fyrir trausta tækniinnviði, samstarf innan og millis stjórnsýslustiga og reynslusögur ma.a. af hagnýtum gervigreindarlausnum í heilbrigðisþjónustu, löggæslu og skattstjórn. Eftirfarandi lykil áhersluþættir gefa vísbendingu um hvernig hið opinbera getur náð árangri á þessu sviði:
Góð gögn auðvelda skilvirkni og aukin þjónustugæði
Gervigreind og gagnastjórnun eru lykilþættir í að auka skilvirkni opinberrar þjónustu. Þekking á gagnavísindum og öflugir upplýsingatækni- og tölvuinnviðir eru nauðsynlegir þættir í að styðja við þessar framþróun hins opinbera og tryggja áreiðanlega og skilvirka þjónustu.
Samstarf um nýsköpun
Með gagnsæu samstarfi hins opinbera og nýskapandi fyrirtækja er hægt að stórefla stafræna hæfni, auka við notendavæna þjónustu og nútímavæða tækniinnviði. Slíkt samstarf við leiðandi markaðsaðila er órjúfanlegur undanfari samfelldrar innleiðingar á gervigreindartækni.
Gervigreind í öllum málaflokkum
Hagnýting gervigreindar er komin áleiðis á nokkrum stöðum í opinbera kerfinu en á erindi enn víðar og á báðum stjórnsýslustigum. Aukin nýsköpunarvitund og virkt samtal innan hins opinbera er til þess fallið að stuðla að samstíga framförum við hagnýtingu gervigreindar.
Aðgerðaáætlun um gervigreind í bígerð
Í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðunyetinu stendur nú yfir vinna við mótun aðgerðaáætlunar um gervigreind á Íslandi. Markmiðið er að leggja áætlunina fram í haust með áherslu á að skapa verðmæti með nýtingu gervigreindartækni, auka skilvirkni opinberra stofnana og tryggja jafnrétti kynjanna við þróun og notkun gervigreindar hérlendis.
Vinnan snýst um að móta stefnu og aðgerðir sem stuðla að uppbyggingu mannauðs og tæknilegs umhverfis sem gerir Íslandi kleift að nýta tækifærin sem felast í gervigreind en jafnframt vinna gegn hugsanlegum ógnum tengdum henni.
Árangursrík innleiðing veltur á góðum undirbúning
Reynslusögur og sérfræðiálit sem fram komu á deginum bentu öll til þess að í upphafi þurfi endinn að skoða. Stór sem smá nýsköpunarverkefni í opinberum rekstri þarf að undirbúa með aðstoð viðeigandi tækni- og innkaupasérfræðinga og verkbeiðni til Ríkiskaupa er fyrsta skrefið í að koma boltanum af stað.
Viðburðinn í heild má sjá hér að neðan.
Myndir frá deginum