2. febrúar 2022
2. febrúar 2022
Um COVID-19 bólusetningar eftir hjartavöðva- og gollurshússbólgur tengdar bólusetningu
Hjartavöðva- og gollurshússbólga eru þekktar sjaldgæfar aukaverkanir eftir COVID-19 bólusetningar. Ráðleggingar um frekari bólusetningar hjá þeim sem fá þessar aukaverkanir.
Hjartavöðva- og gollurshússbólga eru þekktar sjaldgæfar aukaverkanir eftir COVID-19 bólusetningar. Þeim er aðallega lýst í kjölfar bólusetninga með mRNA bóluefni, algengastar eftir skammt #2. Aldurs- og kyndreifing er svipuð og við hjartavöðva- og gollurshússbólgu af öðrum orsökum (sem eru gjarnan veirusýkingar), þ.e. tíðni er hæst hjá 12-39 ára körlum. Enn er ekki vitað hvernig þessi aukaverkun þróast eftir bólusetningu, þ.e. hver kveikja bólgunnar er.
Lítið hefur komið fram um hjartavöðva- eða gollurshússbólgur eftir örvunarskammt (þriðja skammt) COVID-19 bóluefna en almennt hefur ekki verið mælt með að bólusetja aftur þá sem fengið hafa þessa aukaverkun. Nýlega hafa þó t.d. yfirvöld í Kanada mælt með að vegin sé áhætta af COVID-19 smiti á móti áhættu af bólusetningunni fyrir einstaklinga í þessari stöðu.
Í samráði við hjartalækna hér á landi gildir eftirfarandi:
Eins og er er ekki mælt með að bólusetja aftur almennt einstaklinga sem hafa fengið staðfesta hjartavöðva- eða gollurshússbólgu eftir bólusetningu með mRNA bóluefni.
Einstaklingar sem eru taldir í aukinni hættu á alvarlegum veikindum vegna COVID-19 geta rætt frekari bólusetningu við þann lækni sem sinnir undirliggjandi sjúkdómi sem getur þá ráðfært sig við hjartalækni ef þurfa þykir.
Ef ákveðið er að bólusetja aftur á að nota það bóluefni sem er talið ólíklegast til að valda hjartavöðva- eða gollurshússbólgu sem er fáanlegt á hverjum tíma.
Ekki ætti að nota bóluefni frá Moderna fyrir einstaklinga með sögu um hjartavöðva- eða gollurshússbólgu eftir COVID-19 bólusetningu.