15. nóvember 2023
15. nóvember 2023
Tvö ný tölvusneiðmyndatæki á myndgreiningadeild SAk
Mikið framfararskref fyrir öryggi skjólstæðinga á upptökusvæði SAk.
Verið er að klára uppsetningu á tveimur nýjum tölvusneiðmyndatækjum (CT) á myndgreiningadeild Sjúkrahússins á Akureyri. Farið var í miklar húsnæðisbreytingar til að koma tækjunum fyrir en uppsetningu á fyrra tækinu lauk í vor og uppsetning á seinna tækinu lýkur nú í nóvember. Fram til þessa hefur einungis eitt tölvusneiðmyndatæki verið á SAk og langt að sækja þá þjónustu annað skyldi tækið bila.
Tölvusneiðmyndatæki er nauðsynlegur búnaður t.d. þegar um alvarleg slys er að ræða og því mikið öryggismál að tryggja að tækjabúnaður til sneiðmyndatöku sé ávallt til reiðu. Með því að hafa tvö tölvusneiðmyndatæki til umráða á SAk mun öryggi á upptökusvæði Sjúkrahússins á Akureyri aukast verulega.
Undirbúningur og útboðsvinna hefur staðið yfir í um tvö ár og var öðrum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni boðið að taka þátt. Útboðið er í heildina uppá allt að 8 tölvusneiðmyndatæki og þegar er búið að panta 5 tæki - þar af þessi tvö á SAk. „Það er verulegur styrkur að tækin á öðrum stöðum á landinu verði af sömu gæðum og sömu gerð og er á stærri stofnunum. Tækin eru frá GE (General Electric) og umboðsaðili á Íslandi er Healthco/Fastus,“ segir Elvar Örn Birgisson, forstöðugeislafræðingur á myndgreiningardeild.
Þessi nýju tæki á SAk og tengdur búnaður munu auka greiningarhæfni, verða til þess að nýjar rannsóknaraðferðir verði teknar upp og tryggja betur aðgengi. „Tækin eru búin nýjustu tækni sem völ er á, t.a.m er stærra tækið á hér á SAk mun aflmeira en eldra tæki, einnig er það hraðara, búið gervigreind sem er í stöðugri þróun, hefur stærra myndop, tvöfalt breiðari myndnemi ásamt því að tvíorku rannsóknir verða mögulegar svo eitthvað sé nefnt. Við erum mjög ánægð með að geta boðið upp á enn betri og öruggari þjónustu en áður hér á SAk,“ segir Elvar Örn að lokum.