16. apríl 2024
16. apríl 2024
TR og lífeyrissjóðir semja um stafræna upplýsingamiðlun
Tryggingastofnun og lífeyrissjóðir hafa gengið frá samkomulagi um stafræna miðlun upplýsinga um lífeyrisréttindi viðskiptavina sem hafa sótt um lífeyrisgreiðslur til TR.
Með þessu móti er hægt að fækka þeim skrefum sem umsækjandi, TR og lífeyrissjóðir þurfa að taka þegar sótt er um greiðslur frá TR. Þannig mun umsóknaferillinn verða einfaldari fyrir umsækjendur.
Skilyrði fyrir örorku- og ellilífeyri hjá TR er að viðskiptavinur hafi sótt um hjá öllum lífeyrissjóðum sem hann á rétt í. Þess vegna verður TR að fá upplýsingar um í hvaða lífeyrissjóði viðskiptavinur hefur greitt iðgjöld og fá staðfestingu á umsókn frá sjóðunum til að geta afgreitt umsókn viðkomandi. Hér eftir munu þessar upplýsingar berast stafrænt til TR og umsækjendur þurfa því ekki sjálfir að afla þessara gagna og lífeyrissjóðir þurfa ekki að gefa út staðfestingar á umsóknum.
Í samkomulaginu sem lífeyrissjóðir og TR undirrita er fjallað ítarlega um miðlun persónuupplýsinga, ábyrgð og skyldur aðila í tengslum við þá vinnslu og þjónustu sem samkomulagið tekur til.
Samkomulagið er mikilvægt skref til að auka stafræna upplýsingamiðlun á milli TR og lífeyrissjóða, en mikill fjöldi viðskiptavina TR er einnig að fá greiðslur úr lífeyrissjóðum og því öllum til hagsbóta að hafa örugga stafræna miðlun upplýsinga á milli þessara aðila.