18. apríl 2024
18. apríl 2024
TR fær viðurkenningar fyrir nýbreytni í starfsemi
Alþjóðlegu almannatryggingasamtökin (ISSA) hafa veitt Tryggingastofnun (TR) viðurkenningu fyrir góða starfshætti á árinu 2023 sem felast í innleiðingu á tveimur nýjungum í starfseminni; annars vegar á umboðsmanni viðskiptavina og hins vegar á stafrænu örorkuskírteini á Ísland.is. Huld Magnúsdóttir, forstjóri TR, tók við viðurkenningunum fyrir hönd TR á Evrópuþingi ISSA í Porto í Portúgal, 16. apríl.
Til að fá slíka viðurkenningu þarf stofnun á sviði almannatrygginga að sýna fram á að innleiðing tiltekins verkefnis hafi stuðlað að umbótum í þjónustu við viðskiptavini. Þessi tvö verkefni TR uppfylltu skilyrðin og er það fagnaðarefni fyrir TR að fá slíkar viðurkenningar frá alþjóðlegum almannatryggingasamtökunum.
Markmiðið með stöðu umboðsmanns viðskiptavina TR er einkum að styrkja tengsl viðskiptavina og TR ásamt því að stuðla að umbótum í stjórnsýslu og þjónustu í þágu viðskiptavina, sem fellur vel að ofangreindum markmiðum. Það sama á við um stafrænu örorkuskírteinin á Ísland.is sem auðvelda rétthöfum notkun á skírteinunum þar sem þau eru nú aðgengileg í snjallsímum.
„Það er mér mikið ánægjuefni að taka á móti þessari viðurkenningu fyrir hönd TR,“ sagði Huld þegar hún hafði tekið við viðurkenningunum. „Bæði þessi verkefni voru innleidd með það markmið að bæta þjónustu við viðskiptavini okkar. Sú hefur orðið raunin og það sýnt sig að viðskiptavinir kunna að meta að geta haft beint samband við umboðsmann viðskiptavina TR til að fá frekari aðstoð með sín mál hjá okkur. Sömuleiðis er mikil ánægja með stafrænu örorkuskírteinin á Ísland.is sem auðveldar rétthöfum að nálgast skírteinin sín.“ sagði Huld og bætti við að grunnurinn að þessum verkefnum væri öflugt starfsfólk sem hefði ríkan vilja til að vinna að umbótum til að bæta þjónustu TR.