Fara beint í efnið

13. október 2023

TR fær Jafnvægisvogina 2023

Tryggingastofnun hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar fyrir árið 2023 sem var afhent í gær á stafrænu ráðstefnunni Við töpum öll á einsleitninni – Jafnrétti er ákvörðun.

Huld Magnúsdóttir, forstjóri TR, er ánægð með viðurkenninguna.

Það er Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) sem veitir viðurkenninguna. Huld Magnúsdóttir, forstjóri TR, tók við henni fyrir hönd TR frá Elizu Reid forsetafrú. Hjá TR er jafnt vægi kynja í framkvæmdastjórn, en þær stofnanir og fyrirtæki sem fá viðurkenninguna  hafa náð að jafna kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum sínum.

Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni FKA sem hefur þann tilgang að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga. Að þessu sinni voru það 89 aðilar sem fengu viðurkenningu, en 289 aðilar eru þátttakendur í Jafnvægisvoginni.

Hér má sjá frétt og upptöku af ráðstefnu FKA.

Frá afhendingu Jafnvægisvogarinnar 2023.
Jafnréttisvogin