25. nóvember 2022
25. nóvember 2022
Tillögur starfshóps um öryggi siglinga
Í júní 2022 var samþykkt að auglýsa tillögur að strandsvæðisskipulagi fyrir Vestfirði og Austfirði. Skipulagstillögurnar ásamt fylgigögnum voru birtar á vef Skipulagsstofnunar og stóð kynningartími beggja tillagna yfir frá 15. júní - 15. september.
Á kynningartímanum bárust í heildina 125 athugasemdir við tillögu að strandsvæðisskipulagi á Vestfjörðum og 97 athugasemdir við tillögu að strandsvæðisskipulagi á Austfjörðum, en hægt er að nálgast framkomnar athugasemdir við hér á vefnum. Þeirra á meðal voru viðbótarumsagnir frá Samgöngustofu og Vegagerðinni, sem bárust Skipulagsstofnun 6. október.
Í sameiginlegri umsögn Samgöngustofu og Vegagerðarinnar sem byggði á ítarlegri rýni á svæðunum voru gerðar ábendingar um siglingaöryggi á tilteknum reitum.
Í framhaldi af því stofnaði innviðarráðherra Starfshóp um öryggi siglinga nýtingarsvæðum. Í starfshópnum sátu fulltrúar Skipulagsstofnunar, Vegagerðar og Samgöngustofu. Starfshópnum var ætlað það verk að bregðast við þeim atriðum sem dregin voru fram í viðbótarumsögnum Samgöngustofu og Vegagerðarinnar, og að leggja fram tillögur að breyttri útfærslu strandsvæðisskipulags eða að viðunandi mótvægisaðgerðum á siglingamerkjum.
Meðan á vinnu starfshópsins stóð var fundað með fulltrúum Landhelgisgæslunnar, Matvælastofnunar, skipstjórnarmanna auk hafnarstjóra Ísafjarðarbæjar, Bolungarvíkur og Vesturbyggðar.
Að mati starfshópsins er í flestum tilvikum talið mögulegt að tryggja siglingaöryggi með breyttum merkingum eða viðbótar ákvæðum í skipulagi strandsvæða sem varða fyrirkomulag búnaðar. Starfshópurinn telur nauðsynlegt að skerpa á umfjöllum um málefni siglingaöryggis og að við leyfisveitingar á strandsvæðum fari fram áhættumat vegna öryggis siglinga.
Tillögur starfshópsins má nálgast hér: