11. október 2006
11. október 2006
Þessi frétt er meira en árs gömul
Þjófarnir báðust afsökunar
Fjórir ungir piltar, þrír 17 ára og einn 15 ára, reyndu að komast undan með bjórkút sem þeir tóku ófrjálsri hendi af krá í gærkvöld. Lögreglan stöðvaði för þeirra örfáum mínútum eftir að hún fékk tilkynningu um þjófnaðinn. Bjórkúturinn fannst svo við leit í bíl piltanna. Þeir voru fullir iðrunar og óskuðu eftir því að fara aftur á krána til að biðjast afsökunar á framferðinu. Það var svo gert um leið og bjórkútnum var skilað aftur í réttar hendur. Ekki liggur fyrir hvort frekari eftirmál verða vegna þessa.
Þjófurinn, sem stal mynddiskum í verslunarmiðstöð í gær, sýndi ekki alveg jafn mikla iðrun. Hann viðurkenndi þó brot sitt þegar á hann var gengið. Viðkomandi er hálffimmtugur karlmaður sem hefur alloft áður komið við sögu lögreglunnar. Þá var kortaveski stolið frá erlendum ferðamanni sem sat að snæðingi á veitingahúsi í miðbænum. Gesturinn hafði skilið veskið eftir í úlpu í fatahengi en það var horfið þegar kom að því að borga reikninginn.