Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

1. september 2025

Þau ætluðu bara að vera í 1 ár en hafa nú starfað á heilsugæslunni í Vík í 40 ár.

Helga Þorbergsdóttir hjúkrunarfræðingur og Sigurgeir Már Jensson læknir líta til baka eftir fjóra áratugi á Heilsugæslunni í Vík.

Þau ætluðu bara að vera í 1 ár en hafa nú starfað á heilsugæslunni í Vík í 40 ár.  

Það var árið 1985 sem hjónin Helga Þorbergsdóttir og Sigurgeir Már Jensson hófu störf á Heilsugæslunni í Vík. Upphaflega ætluðu þau að prófa starfið í eitt ár – en nú, 40 árum síðar, eru þau enn í héraðinu og starfið er enn fullt af nýjum áskorunum. 

Við settumst niður með Helgu til að fara yfir starfsferilinn þeirra, breytingar á vinnustaðnum og reynsluna af því að vinna saman sem hjón. 

Hvað kom til að þið hófuð störf á Vík fyrir 40 árum? 
„Þegar Sigurgeir var að ljúka læknanámi var svokölluð héraðsskylda við líði. Í henni fólst að til þess að öðlast lækningaleyfi urðu læknar að starfa í dreifbýlishéraði í nokkra mánuði. Þetta var gert í tvennum tilgangi. Annars vegar og líklega aðallega til þess að manna dreifbýlishéruð og hins vegar að læknar fengju reynslu af slíku starfi. Sigurgeir hafði stefnt á sérgrein innan lyflækningasviðs en þegar hann tók héraðsskylduna á Dalvík fann hann að vinna við heilsugæslu höfðaði til hans. 
Árið 1985 var svo auglýst eftir lækni og hjúkrunarfræðingi við Heilsugæslustöðina í Vík og við ákváðum að slá til og prófa í eitt ár. 40 árum seinna erum við enn að prófa og enn færir hver dagur áhugaverð viðfangsefni.“ 

Hvernig hefur vinnustaðurinn breyst á þessum árum? 
„Þegar við fluttum til Víkur var rekstrafyrirkomulag heilsugæslustöðva þannig að hver stöð var sjálfstæð eining með skýrt landfræðilega afmarkað hérað og stjórn stöðvanna var skipuð af sveitarstjórnum þeirra hreppa sem stöðin þjónaði. Stjórn og starfsmenn áttu beint samband við ráðuneyti heilbrigðismála um þætti sem sneru að rekstri stöðvanna. Heilsugæslustöðin í Vík þjónaði íbúum Mýrdalshrepps, gamla Austur-Eyjafjallahrepps og hefð var fyrir því að Álftveringar sæktu þjónustu til Víkur.“ 

,,Nú eru allar heilbrigðisstofnanir á Suðurlandi frá Höfn til Þorlákshafnar sameinaðar undir merkjum HSu og framkvæmdastjórn sameinaðar stofnunar situr á Selfossi. Upptökusvæði læknishéraðsins er í stórum dráttum það sama, en það sem áður var rólegt sveitahérað með innan við 1000 íbúa er nú einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna, landið iðandi af mannlífi og líklega tugir þúsunda oft á tíðum á svæðinu. Það liggur í hlutarins eðli að álag eykst og útköllum fjölgar.“ 

,,Lýðfræðilegir þættir hafa líka breyst með ört vaxandi ferðaþjónustu þannig að meirihluti íbúa í héraðinu er nú af erlendum uppruna. Aukin áhersla á forvarnir og bætt aðgengi að fleiri starfsstéttum innan heilsugæslunnar hefur styrkt starfsemina. Það var mikil framsýni hjá heilbrigðisyfirvöldum á áttunda áratug síðustu aldar að byggja upp heilsugæsluþjónustu um allt landið, með samfellu og öryggi þjónustunnar í huga. Að þessari uppbyggingu þarf að hlúa og hana að þróa í takt við þarfir íbúanna og nýjustu þekkingu.“ 

Helga Þorbergsdóttir, hjúkrunarstjóri í Vík, Baldvina Ýr Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á HSU og Sigurgeir Már Jensson, yfirlæknir í Vík. Myndina tók Harpa Elín Haraldsdóttir.

Hvernig er að vinna saman á sama vinnustað í svona langan tíma? 
„Þessi ár í Vík hafa flogið hratt og við finnum afstæði tímans. Okkur finnst ekki svo langt síðan við hófum störf en á sama tíma höfum við lifað miklar breytingar og átt ótrúlega viðburðaríka starfsferla. Okkur lætur vel að vinna saman og við höfum átt því láni að fagna að fá úrvalsfólk til starfa með okkur. Að vera alltaf á vaktinni tilbúin að bregðast við hverju því sem upp kann að koma gerir starfið að lífsstíl að einhverju leyti. Í vinnunni erum við fagmenn og hamingjusöm hjón heima.“ 

Hvað hefur verið skemmtilegast við það að vera saman í vinnunni? 
„Við njótum þess yfirleitt að vera í félagsskap hvors annars, við erum afar ólík, stöndum þétt saman en þó ekki í skugga hvors annars. Það er styrkur að því í vinnunni að þekkjast svo vel sem við gerum.”

Helga er auk þess að vera hjúkrunarfræðingur með framhaldsmenntun í sjúkraflutningum. 

,,Við höfum oft fundið það t.d. í bráðum útköllum hversu gott er geta unnið hratt án margra orða og þekkja styrk hvors annars. Við eigum ómælt safn minninga margra afar ánægjulegra og oft húmorískra en við eigum líka margar minningar um hamfarir og mikla sorg, þá er gott að eiga tryggan sálufélaga í úrvinnslunni.“ 

Er eitthvað sem stendur upp úr hjá ykkur eftir öll þessi ár á heilsugæslunni? 
„Þakklæti er líklega það orð sem lýsir best tilfinningum okkar þega við lítum yfir árin okkar í héraðinu. Það hvar tekið einstaklega vel á móti okkur þegar við komum og hlýja og traust hafa einkennt samskipti.“ 

Hvað hefur haldið ykkur svona lengi í starfinu? 
„Inntak starfa okkar, fólkið sem til okkar leitar og náttúran í allri sinni dýrð spila saman í þessari sinfóníu.“  

Þess má einnig geta að Helga Þorbergsdóttir hjúkrunarstjóri HSU í Vík í Mýrdal, var sæmd riddarakrossi á nýársdag 2024 fyrir framlag til heilbrigðisþjónustu og sveitarstjórnar- og félagsstarfa í heimabyggð og er vel að því komin. Þá er gaman að segja frá því að dóttir þeirra Margrét Lilja Sigurgeirsdóttir er starfandi hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni í Vík.  

Heilbrigðisstofnun Suðurlands færir Helgu og Sigurgeiri innilegar hamingjuóskir með þessi merku tímamót. Við þökkum þeim kærlega fyrir ómetanlegt starf og óeigingjarna þjónustu í þágu samfélagsins – og óskum þeim alls hins besta á komandi árum.