Fara beint í efnið

11. september 2024

Það er gaman að vera sterk

HSU á Selfossi // Anna Björk Ómarsdóttir, deilarstjóri hjúkrunar á lyflækningadeild.

18A9117

Anna Björk Ómarsdóttir hefur verið deildarstjóri hjúkrunar á lyflækningadeild HSU á Selfossi frá árinu 2021 og starfað hjá HSU síðan 2016. Á deildinni starfa um 60 manns og við forvitnumst bæði um starfsemi hennar og bakgrunn viðmælanda okkar í þessu samtali. “Ég fæddist í Reykjavík 1988, en er samt uppalinn Selfyssingur og vill hvergi annars staðar vera. Gekk í Sólvallaskóla og Fjölbrautaskóla Suðurlands og flutti mig svo norður á Akureyri þar sem ég menntaði mig í hjúkrunarfræði við HA. Útskrifaðist þaðan 2013 og flutti aftur heim á Selfoss. Frá þessum tíma er ég búin að bæta við mig diplómu frá HÍ í hjúkrun langveikra og er núna að prófa þriðja háskólann, en ég skráði mig í meistaranám í forystu og stjórnun á Bifröst í haust og er með hausinn í því núna sem er mjög gaman.“

SÝNINGARSTJÓRI Í SELFOSSBÍÓ
Anna Björk fékk við ýmislegt frá unga aldri. „Ég vann til dæmis lengi vel í bíóinu hér á Selfossi, fyrst í afgreiðslu og varð svo sýningarstjóri og vaktstjóri sem var mjög gaman og minnisstætt. Allar myndir voru sýndar á filmu á þessum tíma og það var eins gott að missa ekki filmurnar í gólfið, en oft var áskorun að koma löngu bíómyndunum upp á sýningarvélina til þess að þræða." Meðfram háskólanáminu á Akureyri starfaði hún á hjúkrunarheimilum og við umönnun.

GIFT ÞINGEYINGI
Aðspurð um fjölskylduhagi segist viðmælandi okkar vera gift Róberti Má Kristjánssyni, sem starfar hjá Set á Selfossi. „Róbert er ættaður frá Aðaldal fyrir norðan en ólst upp á Húsavík og saman eigum við tvær dætur, Karítas Líf sem er að verða 14 ára og Bergdísi Hebu 9 ára. Þær stunda nám við Sunnulækjarskóla og eru báðar að æfa sund og handbolta, en önnur er líka í tónlistarnámi í gítar, þannig það er nóg að gera.“

SAUMAR OG SYNGUR
Um áhugamálin nefnir hún sauma. „Ég hef mjög gaman af því að sauma út og er búin að stunda þá iðju lengi. Það er gaman hvernig alls konar handavinna er að ryðja sér til rúms meðal yngra fólks, sérstaklega prjónaskapur þó að ég snerti hann reyndar ekki. Ég syng einnig í Jórukórnum á Selfossi, en sá félagsskapur er ein sú besta núvitund og sjálfshjálparmeðal sem til er. Frábærar konur þar og ég hlakka alltaf til að mæta og syngja.“

LANGT LEIDDUR LESTRARHESTUR
Anna Björk segist sömuleiðis vera sílesandi lestrarhestur. Les reyndar aðallega námsbækur í augnablikinu í staðinn fyrir krimma, en ég man sko eftir mér á rölti heim eftir skóla með bók í andlitinu að lesa. Þetta var fyrir tíma hljóðbóka og ég mátti engan tíma missa! Að auki er ég svo illa haldin að maðurinn minn keyrir eiginlega í einrúmi, því að ég nýti bílferðir í lestur. Tengdamóðir mín hafði orð á því eitt sinn á bílferðalagi erlendis, að ég ætti kannski frekar að horfa á svissnesku fjöllin allt í kringum okkur frekar en að vera með nefið alltaf ofan í bók!“

SAKBITIN SÆLA NAUÐSYN
"Samhliða náminu hef ég einnig verið að forgangsraða hreyfingu, en ég æfði frjálsar íþróttir þegar ég var yngri og hef fundið gleðina og löngunina í því að hreyfa mig aftur og einkum að stunda lyftingar. Það er nefnilega gaman að vera sterk! Svo er það sakbitin sæla hjá mér að horfa á lélegt raunveruleikasjónvarp yfir saumaskapnum á kvöldin, en þar sem námið er á fullu þessa dagana þá næ ég nú lítið að leyfa mér það, tímabundið! En það að horfa á slíkt sjónvarp er ákaflega mikilvægt til að hvíla hugann þegar maður er með hausinn á fullu allan daginn.“

HJÚKRUN ER KÖLLUN
Við vindum okkar kvæði í kross og ræðum starfið. „Ég hef alltaf vitað að mig langaði til þess að mennta mig og starfa sem hjúkrunarfræðingur. Ég veit ekki alveg ástæðuna, en þetta var mín köllun. Það var enginn í minni nánustu fjölskyldu sem starfaði við fagið þótt það hafi vissulega breyst í dag og hjúkrunarfræðingunum í fjölskyldunni fjölgar, sem er ánægjulegt. Ég pældi í því stutta stund að prófa kennarastarfið, en hætti við. Köllunin var meiri í hjúkrunarfræðinginn. Dáist samt að störfum kennara.“

GLETTILEGA VÍÐFEMT STARF
"Starf deildarstjóra lyflækningadeildar HSU á Selfossi er glettilega víðfeðmt. Enginn dagur er eins og ég veit aldrei hverju ég á von á þegar ég mæti til starfa. Ég þarf að sjá til þess að það sé nægilegur mannskapur í vinnu dag frá degi og manna þegar einhverjar breytingar verða, en þetta er metið alltaf frá degi til dags. Það getur verið talsvert að umfangi, enda starfsmannahópurinn á deildinni um sextíu manns. Jafnframt er leitað til mín eftir ráðleggingum við klíníska vinnu og aðstoð þegar þess þarf. Ég þarf að passa að allur aðbúnaður sé í lagi; þar er verið að tala um öll lyf sem notuð eru, hjálpartæki, húsbúnað og hjúkrunarvörur. Starfsfólk deildarinnar getur ekki unnið sína vinnu nema hafa allt til alls. Jafnframt er okkur umhugað að sinna almennum mannauðsmálum eins og starfsmannafundum, starfsmannaviðtölum og gæta að upplýsingaflæði til hópsins.“

EKKI BARA KLÍNIK
"Ég hef líka yfirsýn yfir sjúklinga deildarinnar og aðstoða eins og ég get með hin ýmsu mál tengdum þeim. Samhliða þarf að sinna allskonar gæðamálum og passa upp á fagmennsku, en við reynum að vinna stöðugt samkvæmt nýjustu leiðbeiningum frá gæðateymum. Ég er sem deildarstjóri í miklum samskiptum við hina ýmsu aðila sem koma að deildinni með einum eða öðrum hætti. Á minni könnu er jafnframt að passa upp á fjármál deildarinnar, það er að allir reikningar stemmi við þau aðföng sem hafa verið keypt inn og gæta þess að ekki séu keypt aðföng sem ekki eru notuð og þar af leiðandi sóað með tilheyrandi kostnaði. Á sama tíma er okkur umhugað um að stuðla að framþróun á deildinni, sama hvort það eru umbætur á húsnæði, verklagsreglum eða fræðslu.“

STARFSEMI LYFLÆKNINGADEILDAR
Anna Björk segir um 60 manns starfa á lyflækningadeild HSU á Selfossi. „Við höfum starfsfólk í býtibúri, ritara, hjúkrunarfræðinga og hjúkrunarfræðinema, sjúkraliða og sjúkraliðanema og einnig starfa hér læknar og læknanemar. Á lyflækningadeild sinnum við öllum sjúklingum sem þurfa innlögn á Suðurlandi nema Vestmannaeyingum því þeir eru svo heppnir að eiga sér sjúkradeild og öfluga þjónustu í Eyjum. Við fáum allar tegundir af sjúklingum til okkar og með allskonar mein, eftir slys, eftir aðgerðir, vegna veikinda og eftir þau. Sérhæfingin er kannski takmörkuð út af almennu eðli deildarinnar, en mig langar þó að telja til líknarmeðferð og endurhæfingu, sem ég tel algjörlega til fyrirmyndar á landsvísu. En við sinnum öllu eins og best er á kosið og þetta er ansi fjölbreytt deild, mjög lifandi og flæðandi.“

GÖNGUDEILD LYFLÆKNINGA
"Við gleymum auðvitað ekki göngudeild lyflækninga, en þar starfar aðstoðardeildarstjóri með mér og sinnir þeirri deild af mikilli natni. Göngudeildin okkar er eining sem hefur vaxið gríðarlega síðastliðin ár ár. Bæði vegna fólksfjölgunar í sveitarfélaginu og eins hefur fólk áttað sig á því að það getur fengið ýmis konar lyfjagjafir í heimabyggð og vill því gera það, sem er frábært. Þrisvar sinnum í viku koma til dæmis sex einstaklingar í nýrnaskilun en við erum nýlega búin að bæta við einni vél til þess að geta sinnt þeim hópi og svo hafa krabbameinslyfjagjafir aukist töluvert. Einnig er verið að gefa blóðgjafir og hin ýmsu líftæknilyf þess fyrir utan.“

STÆRÐIN MIKILL KOSTUR
En hvað skyldi vera það besta við vinnustaðinn? „Það er klárlega fólkið, bæði starfsfólkið sem er algjörlega framúrskarandi í því sem þau gera, en einnig sjúklingarnir sem við fáum að sinna. Í svona starfi fær maður að kynnast svo mikið af skemmtilegu og fjölbreyttum hópi af fólki með ólíka sögu og bakgrunn. Það er ótrúlega gefandi að sinna einstaklingi sem nær bata og betri líðan, en einnig það er ekkert síður stórkostlegt að ná að hjúkra í sátt og samlyndi með sjúklingi og aðstandenda til lífsloka. Persónulega finnst mér það mikill kostur hvað deildin er stór og fjölbreytt og enginn dagur eins. Það er enn verið að koma mér á óvart eftir 8 ár frá útskrift með margvíslegum málum, þannig hér lærum við stöðugt eitthvað nýtt.“

SAMRÆMD MEÐFERÐARSKRÁNING
Aðspurð um verkefni framundan segir Anna Björk að lokum: „Við ætlum að fara að bæta og samræma alla meðferðarskráningu sem ætti að auðvelda og gera skráningu á deildinni betri. Við höfum verið með árlega fræðsludaga þar sem eitt þema er valið og í ár er það þetta verkefni. Jafnframt er verið að laga aðbúnað inni á göngudeild og við erum að fá þar nýtt lyfjaherbergi sem verður tekið í gegn fljótlega og það er mjög spennandi og nauðsynlegt verkefni.“

18A9223
18A9157

Viðtal: Stefán Hrafn Hagalín

Myndir: Valgarður Gíslason