Fara beint í efnið

23. september 2022

Þrjár stofnanir hljóta viðurkenningu fyrir Stafræn skref

Virkilega góð þátttaka var á Tengjum ríkið í ár en þetta er í þriðja sinn sem ráðstefnan er haldin.

Stafræn skref 2022

Á Tengjum ríkið ráðstefnunni sem haldin var 22. september sl. fengu þrjár stofnanir sérstaka viðurkenningu sem kallast Stafræn skref. Stofnanirnar eru Fjársýsla ríkisins, Ríkislögreglustjóri og sýslumenn en þær hafa tekið flest Stafræn skref í samstarfi við Stafrænt Ísland.

Viðurkenning fyrir Stafræn skref var veitt í fyrsta skipti en skrefin eru níu talsins: Stafrænt pósthólf, Innskráning fyrir alla, Umsóknarkerfi Ísland.is, Mínar síður Ísland.is, Vefsíða á Ísland.is, Spjallmennið Askur, Ísland.is appið, Straumurinn og Þjónustuvefur á Ísland.is. Búast má við að Stafrænu skrefin muni þróast á næstu árum í takti við stafræna þróun.

Mikil þátttaka var á Tengjum ríkið ráðstefnunni í ár en þetta er í þriðja sinn sem ráðstefnan er haldin. Hátt í 400 manns lögðu leið sína í Hörpu og mikill fjöldi fylgdist með í streymi. Þjónusta fékk um 1200 innlit í streymi, Þróun um 500 og Tækifæri sömuleiðis um 500. Búast má við að enn meira áhorfi nú þegar erindin hafa verið gerð aðgengileg á Ísland.is. 

Fjöldi áhugaverðra og fróðlegra erinda voru flutt af fjölda sérfræðina bæði innan opinbera geirans sem og utan. Aðalfyrirlesari að þessu sinni var Kevin Cunnington fyrrum forstjóri GDS (Government Digital Services) í Bretlandi en hann er einn þeirra sem hefur leitt stafræna þróun hins opinbera þar í landi. Kevin Cunnington leiddi okkur í gegnum nýja rannsókn sem fjallar um hvað það er sem stafrænir leiðtogar þurfa til að ná árangri og helstu hindranir stofnana á stafrænni vegferð. Þá fengum við erindi frá Dr. Silvija Seres en hún sérhæfir sig í stafrænni umbreytingu.

Markmið ráðstefnunar er að opna samtalið milli stofnana og einkageirans um stafræna þjónustu, ýta undir nýsköpun og auka þekkingu og fróðleik.

Tengjum ríkið er ráðstefna um stafræna vegferð hins opinbera og er haldin af Stafrænu Íslandi.