Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

9. september 2025

Talsverð fjölgun mála milli mánaða

Talsverð fjölgun er á skráðum málum til úrvinnslu hjá embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra milli mánaða, tæplega 800 mál voru skráð hjá embættinu í ágúst samanborið við rúmlega 600 í júl

Talsverð fjölgun er á skráðum málum til úrvinnslu hjá embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra milli mánaða, tæplega 800 mál voru skráð hjá embættinu í ágúst samanborið við rúmlega 600 í júlí.

Fjöldi þeirra mála er lögregla var til aðstoðar við borgarana eða opinbera aðila er áþekkur milli mánaða, alls voru 9 mál til úrvinnslu sem aðstoð við borgarana. Þau mál voru mjög fjölbreytt, tilkynnt var um ökutæki sem lokaði vegi, hjólreiðamanni var veitt aðstoð til að komast ferða sinna og borgurum var liðsinnt vegna veikinda. Þá voru um 10 mál er lögregla var til aðstoðar við opinbera aðila, í flestum tilvikum vegna staðfestingar skilríkja en einnig til aðstoðar við sjúkraflutninga í lögreglufylgd.

Meira var um tilkynningar vegna lausra hrossa í ágúst mánuði en áður. Slíkar tilkynningar bárust víða úr umdæminu og minna okkur á mikilvægi þess að tryggja girðingar þegar ferðast er um sveitir á hrossum. Þá var enn á ný tilkynnt um hvalreka í Húnaþingi vestra og dauðan ref á Skagfirðingabraut. Þá var ekið á lamb að meðaltali 3ja hvern dag í ágúst.

Um 100 mál varða afskipti af útlendingum og eru þau langflest vegna umferðartengdra mála. Lang flestum vegna hraðakstur en einnig vegna réttindaleysis við akstur. Þá var einnig farið í sérstakt vinnustaðaeftirlit.

Þá voru gerðar athugasemdir við afgreiðslu áfengis á veitingastað utan leyfilegs afgreiðslutíma annars vegar og hins vegar vegna þess að áfengi var veitt yngri en 20 ára. Þá var haft samband við foreldra fjögurra ungmenna undir 18 ára aldri vegna áfengisneyslu ungmennanna. Embættið leggur sérstaka áherslu á að vinda ofan af þeirri menningu sem gerir áfengisneyslu ungmenna sjálfsagða, m.a. innan verkefnisins Öruggara Norðurland vestra.

Mál er varða heimilisófrið, annars vegar ágreining á milli skyldra og tengdra og heimilisofbeldi voru alls 4 í ágúst mánuði. Slíkt mál eru alla jafna unnin í nánu samstarfi við aðrar stofnanir og séu börn á heimili viðkomandi eða í umsjá viðkomandi er því einnig fylgt eftir með tilkynningu til barnaverndar.

Umferðartengd mál voru 306 í ágúst mánuði, þar af 20 mál vegna umferðaslysa. Þrjár bílveltur urðu í umdæminu, nokkuð um útafakstur og tjón á hjólhýsum svo eitthvað sé nefnt. Almennt var ekki slys á fólki en eignatjón talsvert. Í einu tilviki hið minnsta er grunur um akstur undir áhrifum ávana- og fíknilyfja og í öðru máli var um að ræða ökumann án tilskilinna réttinda. Því til viðbótar voru höfð afskipti af 6 ökumönnum sem ekki höfðu gild ökuréttindi. Þrír þeirra voru einnig uppvísir að því að aka of hratt. Þá var ökumaður sektaður án þess að nota öryggisbelti við akstur.

Ökumönnum tveggja bifreiða var gert að færa bifreiðarnar til skoðunar skráningarmerki voru fjarlægð af var af 18 ökutækjum, ýmist vegna ástands þeirra eða vanrækslu á skoðunarskyldu. Þá voru höfð afskipti af ökumönnum 6 bifreiða þar sem þeim hafði verið lagt ýmist öfugt miðað við akstursstefnu, upp á gangstétt eða í sérmerkt stæði fyrir fatlað fólk án þess að hafa til þess heimild.

Alls voru 248 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í ágúst. Rúmlega helmingur þeirra ökumanna hafa annað ríkisfang en íslenskt, og flest afskipti eru á Norðurlandsvegi. Langflestir óku á 115-130 km/klst. Þá bárust einnig nokkrar tilkynningar um glæfraakstur ungmenna en þeim tilkynningum var fylgt eftir með heimsókn lögreglu til ungmenna í FNV.

Þá var tilkynnt um brot á lögum um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum, eignaspjöll, fjársvik, líkamsárás og húsbrot. Því til viðbótar var tilkynnt um 4 slys, önnur en umferðarslys þar sem lögregla var kvödd á vettvang.

Því til viðbótar naut embættið aðstoðar sérsveitar Ríkislögreglustjóra þegar sprengiefnum, skotfærum og fleira var eytt.