2. október 2023
2. október 2023
Svefnrannsókn kynnt á Vísindavöku
Mennta-og vísindadeild kynnti svefnrannsóknina „Algengi svefnvandamála meðal barna” á Vísindavöku Rannís sem fram fór í Laugardalshöll, á laugardaginn síðastliðinn.
Laufey Hrólfsdóttir, deildarstjóri mennta- og vísindadeildar, Ingibjörg Ösp Ingólfsdóttir, hjúkrunarfræðingur og meistaranemi í lýðheilsu og Magnús Ingi Birkisson sérnámsgrunnslæknir stóðu vaktina og kynntu svefnrannsóknina en hátt í 400 börn hafa þegar tekið þátt í henni. Á básnum var hægt að prófa tækið sem notað er í rannsókninni en þar gafst einnig kostur á að giska á ráðlagðan svefntíma mismunandi aldurshópa.
„Það er alltaf mikilvægt að kynna þær rannsóknir sem eru í gangi hverju sinni. Og þetta verkefni er okkur afar kært þar sem þetta er ein stærsta rannsókn sem SAk hefur leitt. Við fengum til okkar fullt af forvitnu fólki og gátum upplýst um fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar og svo gátu börnin leyst skemmtilegar þrautir sem tengjast svefni“ sagði Laufey Hrólfsdóttir, deildarstjóri mennta- og vísindadeildar SAk.
Um rannsóknina:
Kæfisvefn og önnur svefnvandamál geta haft mikil og víðtæk áhrif á heilsu barna. Svefnvandamál geta ýtt undir ofþyngd/offitu og þróun vissra sjúkdóma seins og hjarta- og æðasjúkdómum síðar á ævinni. Kæfisvefn barna hefur almennt ekki verið mikið rannsakaður og nánast ekkert hér á landi.
Rannsóknin er þversniðsrannsókn og þátttakendur eru 4-9 ára börn á Akureyri. SleepImage tækni er notuð og svefn mældur í 5 nætur.