Fara beint í efnið

20. desember 2024

Svæðisráð vekja athygli á nauðsyn fullnægjandi vöktunar

Strandsvæðisskipulag Austfjarða og Vestfjarða.

20190917 103631

Á dögunum var síðasti fundur svæðisráða Vestfjarða og Austfjarða haldinn, en samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða skipar ráðherra nýtt svæðiráð að loknum kosningum.

Fundurinn var sameiginlegur fundur beggja ráða og í kjölfar hans sendu ráðin frá sér sameiginlega, bréf til Innviðaráðuneytisins. Í bréfinu er vakin athygli ráðuneytisins á nauðsyn þess að tryggja fullnægjandi vöktun á skipulagssvæðunum í samráði við Matvælaráðuneytið og Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið. Einnig er þar lögð áhersla á mikilvægi þess að efla samstarf milli þeirra stofnana sem gegna lykilhlutverki í vöktun vistkerfisins þannig að tryggt sé að þau gögn sem verða til við vöktun bæði stofnana og fyrirtækja séu reglulega tekin saman og heildarmat lagt á ástand vistkerfis á strandsvæðum á Austfjörðum og Vestfjörðum á grundvelli þessara gagna.

Tildrög bréfsins má rekja til áherslu í strandsvæðisskipulagi beggja svæða, á vistkerfisnálgun, umhverfisvöktun og mikilvægi þess að styrkja þann þekkingargrunn sem er til staðar, til að undirbyggja framfylgd skipulagsins sem og breytingar á því í framtíðinni. Að mati svæðisráðanna beggja er nauðsynlegt að efla umhverfisvöktun, rannsóknir og vöktun á umhverfi og lífríki á skipulagssvæðunum svo einstakar leyfisveitingar um nýtingu geti ávallt byggt á réttum upplýsingum og að ekki hljótist skaði af fyrir vistkerfi sjávar. Regluleg vöktun er jafnframt forsenda þess að bregðast megi við tímanlega ef mál þróast á verri veg og hnignun verður í vistkerfum sjávar.

Nánari umfjöllun um vistkerfisnálgun og umhverfisvöktun má finna í 7. kafla Strandsvæðisskipulags Austfjarða og Strandsvæðisskipulagi Vestfjarða.