22. desember 2025
22. desember 2025
Stjórnendur geðþjónustu í náms- og kynningarferð til Bergen
Dagana 15.-18. október sl. fór hópur stjórnenda geðþjónustu ásamt verkefnastjóra RÖG verkefnisins í náms- og kynningarferð til Bergen þar sem öryggisgeðþjónustan á Sandviken-sjúkrahúsinu var skoðuð auk þess að heimsækja fangelsið í Bergen til að skoða sérstaklega geðheilbrigðisþjónustu við fanga.

María Sigurjónsdóttir, íslenskur geðlæknir sem er búsett í Noregi og hefur meira en 30 ára reynslu af starfi í öryggisgeðþjónustu, tók á móti hópnum með tveggja daga þéttskipaðri dagskrá sem fól í sér bæði fræðslu og kynningar á starfseminni og heimsóknir á legudeildir og í fangelsið.
Margt hægt að læra af norsku geðheilbrigðisþjónustunni
Í Noregi hefur farið fram heilmikil rýni á öryggisgeðþjónustu og nýlega voru gefin út viðmið um þá þjónustu, meðal annars varðandi fjölda legurýma, mönnunarviðmið, öryggisráðstafanir og innihald meðferðar.
Geðheilbrigðisþjónustan í Noregi er að mörgu leyti lík þeirri íslensku og margt hægt að læra af þeim og laga að íslenskri þjónustu þó svo að löggjöfin sé ólík, en í Noregi eru sérstök lög um geðheilbrigðisþjónustu.
Hópurinn fékk kynningu á norsku geðheilbrigðislöggjöfinni, starfsemi öryggisgeðþjónustunnar í Sandviken, bæði á legudeildum og í langtímaeftirfylgd. Eins voru hópnum kynntar helstu starfsstéttir sem koma að þjónustunni, meðferðaráætlunum og öryggisráðstöfunum. Í lokin var þekkingarmiðstöð réttar- og öryggisgeðþjónustu kynnt.
Starfsemi réttar- og öryggisgeðþjónustunnar efld
Réttar- og öryggisgeðþjónustan er mikilvægur þáttur í starfsemi Landspítala og samanstendur í dag af tveimur legudeildum og göngudeild. Þjónustuþörfin fer vaxandi og hefur til að mynda rúmanýting á réttargeðdeild tvöfaldast á síðustu 3-4 árum. Á sama tíma er ákall eftir aukinni þjónustu við verulega hegðunarraskaða einstaklinga og fanga með flókinn og margþættan vanda. Það er hins vegar skortur á legurýmum í þjónustunni og þörf á að endurnýja núverandi húsnæði. Í nágrannalöndum er lögð aukin áhersla á samfélagsgeðþjónustu í langtímaeftirfylgd einstaklinga í réttar- og öryggisgeðþjónustu í stað hefðbundins göngudeildareftirlits til að auka gæði og öryggi þjónustunnar.
Geðþjónustan hefur því sett af stað stórt og viðamikið verkefni (RÖG verkefnið), sem mun efla og breyta starfsemi réttar- og öryggisgeðþjónustunnar. Yfirvöld hafa samþykkt stækkun á starfseminni um eina átta rúma legudeild og fara legupláss þá úr 16 í 24.
Verið er að gera upp nýtt húsnæði fyrir aðra af núverandi deildum þar sem áherslan er á vistlegt og batamiðað umhverfi, beint aðgengi að deild út í lokaðan garð og verða öll sjúklingaherbergi með sérbaðherbergi. Farið verður í breytingar á skipulagi göngudeildareftirlits með nágrannalöndin sem fyrirmynd þar sem áhersla verður á aukna samfélagsgeðþjónustu. Lokamarkmið verkefnisins er stækkuð og öflug réttar- og öryggisgeðþjónusta sem uppfyllir nútímakröfur og þjónar sjúklingum á faglegan og gagnreyndan máta. Áætluð verklok eru í upphafi árs 2027.