9. mars 2022
9. mars 2022
Starfsleyfi vegna neyslurýmis
Embætti landlæknis gefur út fyrsta starfsleyfi vegna neyslurýmis.
Samkvæmt reglugerð um neyslurými, geta sveitarfélög sótt um leyfi til embættis landlæknis, til reksturs neyslurýmis. Neyslurými er lagalega verndað umhverfi þar sem neytendur sem eru 18 ára og eldri geta sprautað ávana- og fíkniefnum í æð undir eftirliti starfsfólks og gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna.
Um rekstur neyslurýma gilda ítarlegar reglur og gæðahandbók vegna starfseminnar þarf að liggja fyrir áður en starfsleyfi er veitt.
Neyslurými byggja á hugmyndafræði skaðaminnkunar en markmið hennar er að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar löglegra og ólöglegra ávana- og fíkniefna.
Í bráðabirgðaákvæði reglugerðarinnar er embætti landlæknis heimilað, þar til húsnæði hefur verið opnað sem neyslurými, að veita sveitarfélagi leyfi til að nýta tímabundið sérútbúinn bíl enda uppfylli hann kröfur reglugerðarinnar, eftir því sem við á.
Embætti landlæknis gaf í dag út starfsleyfi vegna sérútbúins bíls, sbr. framangreint. Rauði krossinn annast reksturinn, skv. samningi við Reykjavíkurborg. Embætti landlæknis hefur eftirlit með starfseminni.
Sjá nánari upplýsingar á vef Rauða krossins.
Nánari upplýsingar veitir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis. kjartanh@landlaeknir.is