9. október 2023
9. október 2023
Starfsfólk SAk er lausnamiðað og sér tækifæri í þeim verkefnum sem blasa við
Á fimmtudag í síðustu viku tók forstjóri auk hluta framkvæmdastjórnar á móti fríðum flokki þingmanna Norðausturkjördæmis. Þingmenn allra flokka voru í svokallaðri kjördæmaviku en þá fara þeir um kjördæmið og kynna sér málefnin frá fyrstu hendi.
„Við erum öllu jafnan í mjög góðu sambandi við okkar þingmenn en svona fundir eru alltaf góðir til að skerpa á áherslunum okkar og til að eiga samtal um þær áskoranir sem SAk stendur frammi fyrir. Ég hef fundið það í gegnum tíðina að þingmennirnir vilja vera með okkur í liði og vekja athygli á því mikilvæga starfi sem fer fram á Sjúkrahúsinu á Akureyri og þeirri sérstöðu sem við höfum sem annað tveggja sérgreina-sjúkrahús í landinu fyrir utan höfuðborgarsvæðið,“ sagði Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk.
Í kynningunni fór forstjórinn yfir helstu áskoranir sjúkrahússins á árinu en þar ber helst að nefna mikið álag vegna veikinda starfsfólks, aukinn fjöldi ferðamanna á svæðinu svo og keðjuverkandi áhrif mygluvanda hjúkrunarheimilis á svæðinu. Allt þetta hefur slæm áhrif á útgjaldahlið sjúkrahússins. Þá rakti hún til hvaða aðgerða hefur verið gripið til að koma til móts við starfsfólk og þá vegferð að koma starfseminni aftur í gott horf.
Eftir kynningu forstjóra tók Björn Gunnarsson stutta kynningu á góðum og sanngjörnum staðsetningum fyrir sjúkraþyrlur en á eftir spunnust áhugaverðar umræður.
„Á sjúkrahúsinu er unnið gríðarlega mikilvægt og öflugt starf. Það sem vakti athygli mína og hefur í raun gert áður er hversu lausnamiðað og jákvætt starfsfólk SAk er á því að sjá tækifæri og lausnir í þeim verkefnum sem blasa við. Eftir kynninguna sé ég enn betur fyrir mér tækifærin sem felast í því að færa sérfræðiþjónustu í meira mæli til stofnana á landsbyggðinni. Svo ekki sé talað um baráttuna um að fá þyrlu til Akureyrar – það styðja einfaldlega útreikningar og vísindaleg rök,“ sagði Ingibjörg Isaksen, þingmaður í forsvari fyrir hópinn.