Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

17. október 2025

Starfsferð til Færeyja og samstarf við Vørn

Um miðjan september fóru fulltrúar Fiskistofu í starfsferð til Færeyja og áttu vinnufundi með starfsfólki Vørn í Þórshöfn

Hluti hópsins á góðri stundu: Þórarinn Traustason, Sævar Guðmundsson, Elín Björg Ragnarsdóttir, Alis Eidesgaard, Viðar Ólason, Jóhan Simonsen, Petur Meinhard Jacobsen og Dóróthea Jónsdóttir

Vørn er færeysk stofnun sem sér meðal annars um fiskveiðieftirlit og björgunstörf í færeyskri lögsögu. Vörn gegnir því hlutverki sem að nokkru svarar til Fiskistofu, Landhelgisgæslu Íslands og Veðurstofu Íslands. 

Á fundunum var fjallað um eflingu samstarfs, einkum eftirlit með veiðum íslenskra skipa á færeyskum miðum og veiðum færeyskra skipa á Íslandsmiðum. Sérstök áhersla var lögð á uppsjávarveiðar. Gott samstarf á milli þjóðanna er afar mikilvægt þar sem íslensk uppsjávarskip stunda umtalsverðar kolmunnaveiðar í færeyskri lögsögu og færeysk uppsjávar- og línuskip veiða talsvert hér við land.  

Gestgjafar okkar hjá Vørn tóku afar vel á móti hópnum og fengum við gott tækifæri til að kynnast samfélagi og atvinnuháttum eyjanna. Ekið var á milli byggða sem í senn bera merki öflugs sjávarútvegs og mikillar náttúrufegurðar. Á skrifstofum Vørn var einnig boðið upp á kynningu á  færeyskri matarmenningu, þar sem meðal annars var á boðstólum þurrkaður grindhvalur og saltað grindarspik.