5. mars 2024
5. mars 2024
Starfsemistölur fyrir janúar-febrúar 2024
Stöðug aukning í þjónustu vegna krabbameinslyfjagjafa
Fjöldi dvalardaga í janúar og febrúar var 4.454, samanborið við tæplega 5.100 dvalardaga á sama tíma í fyrra þannig að starfsemi hefur dregist lítillega saman. Meðallega á deild 4,8 dagar.
Flestir sjúklinganna eru lagðir inn í bráðainnlögn en þær eru um 75% af heildarinnlögnum.
Ef horft er til rúmanýtingar deilda þá er lyflækningadeild með tæplega 100% nýtingu, skurðlækningadeild með rúmlega 80% sem er ívíð minna en í fyrra og á það sama við um geðdeildina.
Legurúmafjöldi barnadeildar hefur verið 8 hingað til en hefur verið endurskilgreindur og er nú fjöldi legurýma 6 (þar af 2 vökudeildarrými) og 2 dagdeildarrými en þannig má sjá raunverulega nýtingu legurýma betur.
Rúmlega 3.600 einstaklingar hafa fengið þjónustu á göngudeild og þar af 407 vegna krabbameinslyfjagjafar, samanborið við 378 lyfjagjafir á sama tíma í fyrra og er stöðug aukning í þeirri þjónustu.
Á bráðamóttöku og göngudeild bráðamóttöku er fjöldi samskipta 2.972 samanborið við 2.759 á sama tíma í fyrra og því aukningin milli ára tæplega 8%. Biðtími eftir því að hitta lækni á bráðamóttöku er nú um 41 mínútur sem nálægt viðmiðum okkar um 40 mínútna bið eftir lækni.
Fjöldi skurðaðgerða fyrstu tvo mánuði ársins voru 475 sem er ívíð meira en í fyrra en þá var ekki hægt að vera með fulla starfsemi vegna álags og skorts á starfsfólki auk þess sem aðgengi að sérfræðingum hefur áhrif á fjölda skurðaðgerða. Um 26,5% aðgerða voru bráðaaðgerðir og gerviliðaaðgerðir 64 sem er sambærilegt og í fyrra.
Fjöldi myndgreiningarannsókna (án brjóstamynda) var um 6.740 og gerir það að meðaltali um 112 rannsóknir á dag sem er sambærilegt og verið hefur. Lítillega hefur dregist saman í öðrum rannsóknum s.s. á rannsóknadeild og á lífeðlisfræðideild.
Aukin fæðingartíðni var á tímabilinu en í ár hafa fæðst 68 börn samanborið við 53 börn á sama tíma í fyrra.
Árið byrjar sambærilega og í fyrra varðandi komur og innlagnir ósjúkratryggðra.