9. maí 2024
9. maí 2024
Starfsemistölur fyrir janúar-apríl 2024
Aukning í fjölda krabbameinslyfjagjafa.
Fjöldi dvalardaga þessa fjóra mánuði var rúmlega 9.000 sem er heldur færra en í fyrra. Dvalir einstaklinga eru að styttast og meðalfjöldi dvala eru núna 4,5 dagar samanborið við 4,9 í fyrra.
Flestir sjúklinganna eru lagðir inn í bráðainnlögn en þær eru um 74% af heildarinnlögnum.
Ef horft er til rúmanýtingar deilda þá er lyflækningadeild með 92,5% nýtingu, skurðlækningadeild með tæplega 85% sem er ívíð minna en í fyrra og á það sama við um geðdeildina. Ástæðan er sú sama og að ofan að útskriftir eiga sér stað fyrr en áður og rúmanýting þannig betri.
Rúmlega 5.600 einstaklingar hafa fengið þjónustu á göngudeild og þar af 798 vegna krabbameinslyfjagjafar, samanborið við 696 lyfjagjafir á sama tíma í fyrra og er stöðug aukning í þeirri þjónustu.
Á bráðamóttöku og göngudeild bráðamóttöku er fjöldi samskipta 6.059 samanborið við 5.925 á sama tíma í fyrra (sjá graf um komur á bráðamóttöku janúar til apríl ár hvert). Biðtími eftir því að hitta lækni á bráðamóttöku hefur aukist lítillega og er nú um 44 mínútur sem er aðeins fyrir utan viðmið okkar um 40 mínútna bið eftir lækni.
Fjöldi skurðaðgerða þessa fjóra mánuði ársins voru 912 sem er sambærilegt og í fyrra. Um 27,7% aðgerða voru bráðaaðgerðir og gerviliðaaðgerðir 140 á móti 135 gerviliðaaðgerðum í fyrra.
Fjöldi myndgreiningarannsókna (án brjóstamynda) var um 13.600 og gerir það að meðaltali um 112 rannsóknir á dag sem er sambærilegt og verið hefur. Lítillega hefur dregist saman í öðrum rannsóknum s.s. á rannsóknadeild og lífeðlisfræðideild.
Enn heldur áfram aukning í fæðingum miðað við í fyrra en í ár hafa fæðst 137 börn samanborið við 126 börn á sama tíma í fyrra.
Komur og innlagnir ósjúkratryggðra eru á pari við sama tímabil í fyrra.