Fara beint í efnið

3. september 2024

Starfsandinn er einstakur

HSU í Vestmannaeyjum // Una Sigríður Ásmundsdóttir, deildarstjóri hjúkrunar á Hraunbúðum, dvalar- og hjúkrunarhemili HSU í Vestmannaeyjum

A7C0263

Viðmælandi okkar að þessu sinni er Una Sigríður Ásmundsdóttir, deildarstjóri hjúkrunar á Hraunbúðum, hjúkrunar- og dvalarheimili Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í Vestmannaeyjum. Una fæddist í Eyjum 22. febrúar 1967, gekk hefðbundinn menntaveg í grunn- og framhaldsskólum bæjarins og lauk svo hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri árið 2013. Hún starfaði sem hjúkrunarfræðingur á sjúkradeild HSU í Vestmannaeyjum í nokkur ár eftir útskrift, en hefur verið deildarstjóri á Hraunbúðum frá 2019. "Ég hef umsjón með starfsfólki og öllu því viðtengdu, ásamt þeim fjölmörgu störfum sem deildarstjóri þarf að inna af hendi á hverjum degi," segir hún um verkahring sinn.

FJÖLBREYTTUR BAKGRUNNUR
Una vann ýmis störf áður hún gekk til liðs við heilbrigðisgeirann, til dæmis í fiskvinnslu, á hárgreiðslustofu og við þrif í Herjólfi. Að auki starfaði hún lengi sem sjúkraliði áður en hjúkrunarfræðin heillaði. Una á 5 börn, fjóra stráka og eina stelpu, og 6 barnabörn, en maki hennar er Óskar Guðjón Kjartansson, verkstjóri hjá Vestmannaeyjabæ. Um lífið utan vinnu nefnir Una áhuga á líkamsrækt, prjónaskap og náttúruskoðun, enda sé fegurðin, fjöllin og sjórinn það besta við Eyjar.

STEINUNN ÁHRIFAVALDUR
Hvers vegna valdi hún þennan tiltekna starfsferil hjá HSU í Vestmannaeyjum? "Þessi vinna var afskaplega fjarri mér þegar ég var ung, en áhuginn kom þegar ég fór að eldast og spá meira í mannslíkamanum, sem er alveg stórkostlegt fyrirbæri. Ég byrjaði á barneignum og fór að læra seinna. Ég var í sjúkraliðanámi hjá Steinunni Jónatansdóttur hjúkrunarfræðingi og hún var svo sannarlega minn áhrifavaldur þegar kom að þessu vali mínu á hjúkrunarfræðinni."

EINSTAKUR STARFSANDI.
"Það besta við vinnustaðinn eru íbúarnir okkar og ég hlakka alltaf til að mæta í vinnuna mína og sinna þeim margvíslegu verkefnum sem þar bíða. Þetta er góður vinnustaður og það er bara yndislegt fólk sem vinnur hérna. Starfsandinn á Hraunbúðum er einstakur og til fyrirmyndar og öll leggja sitt af mörkum til að við getum hugsað sem best um gamla fólkið okkar sem skiptir jú öllu máli. Á okkar starfseiningu snýst allt um það að láta íbúunum líða vel; að þeir fái þá bestu mögulegu þjónustu sem HSU hefur upp á að bjóða og vinna vel með fjölskyldum íbúa því þau þekkja jú íbúann best."

35 HJÚKRUNAR- OG DVALARRÝMI
Á Hraunbúðum eru 31 hjúkrunarrými og 4 dvalarrými. "Starfsfólk er tæplega 70 talsins og samanstendur af hjúkrunarfræðingum, sjúkraliðum, starfsfólki í umönnun, starfsfólki í býtibúri, ræstingu og þvottum. Læknir starfar enn fremur við heimilið og kemur alla vega einu sinni í viku. Eins er greiður aðgangur að þeim læknum sem eru á vöktum á heilsugæslunni."

NÝTT HJÚKRUNARHEIMILI Á ÓSKALISTANUM
Við spyrjum Unu hvort hún lumi á einhverjum óskalista í starfi. "Ég myndi vilja nýtt hjúkrunarheimili með öllu því besta sem nýtíminn hefur upp á að bjóða tengdum tækjum og tólum. Maður vill alltaf reyna að gera hlutina betur og stefnir stöðugt að því. Hér á Hraunbúðum er unnið mikilvægt starf á hverjum degi og við ætlum að sjálfsögðu að halda því áfram. Þetta heimili er barn síns tíma, en mikið búið að endurnýja og laga. Við horfum björtum augum til framtíðar," segir Una Sigríður Ásmundsdóttir að lokum.