20. mars 2024
20. mars 2024
Starf á veiðieftirlitssviði
Fiskistofa óskar eftir að ráða eftirlitsmenn í 1-2 stöðugildi á veiðieftirlitssviði.
Fiskistofa leitar að metnaðarfullum, sjálfstæðum, jákvæðum og drífandi einstaklingum sem hafa reynslu og áhuga á sjávarútvegi til starfa á starfsstöð stofnunarinnar í Hafnarfirði.
Fiskistofa leggur áherslu á stafrænar- og rafrænar lausnir, greiningar og áhættumat til skilvirkara eftirlits og er starf við veiðieftirlit hjá Fiskistofu afar fjölbreytt og enginn einn dagur eins. Starf eftirlitsmanns eru almenn eftirlitsstörf á sjó, í landi og skrifstofustörf svo sem gerð eftirlitsskýrslna og rafrænt eftirlit.
Helstu verkefni og ábyrgð
Eftirlit á sjó. Það felur m.a. í sér eftirlit með hinum ýmsu skipum og bátum, þar af tvær eftirlitferðir á ári með vinnsluskipum. Eftirlit á sjó felur m.a. í sér lengdarmælingar á fiski og tillögugerð um lokanir veiðisvæða, eftirlit með aflasamsetningu, veiðarfærum, hlutfalli smáfisks í afla og brottkasti afla.
Eftirlit í landi. Það felur m.a. í sér eftirlit með löndun, eftirlit með vigtun og skráningu afla á hafnarvogum og hjá vigtunarleyfishöfum, eftirlit með veiðarfærum og aflasamsetningu, lengdarmælingar á afla og eftirlit með færslu afladagbóka. Eftirlit með löndunum erlendra skipa og úttektir á afurðum vinnsluskipa, eftirlit með lax- og silungsveiði, malartekju í veiðivötnum ásamt skrifstofustörfum s.s. skýrslugerð þegar vettvangsstörfum lýkur, eftirliti með löndunum og skráningum í aflaskráningarkerfi Fiskistofu ásamt öflun gagna vegna brotamála sem upp koma.
Rafrænt eftirlit. Greining gagna og þróun.
Eftirlitsflug með fjarstýrðum loftförum.
Önnur verkefni á starfssviði stofnunarinnar.
Hæfniskröfur
Menntun sem nýtist í starfi.
Mjög góð almenn tölvukunnátta.
Góð íslensku kunnátta.
Góð ensku kunnátta og/eða norðurlandamáli kostur.
Greiningarfærni og talnagleggni.
Haldgóð reynsla og þekking af störfum í sjávarútvegi.
Þekking og reynsla af sjómennsku er kostur.
Gott heilsufar sbr. heilsufarskröfur Fiskistofu.
Sjálfstæði, fagmennska og nákvæmni í vinnubrögðum.
Sanngirni og háttvísi.
Mjög góð hæfni í hópastarfi og samskiptum nauðsynleg.
Hreint sakavottorð.
Umsóknarfrestur er til 10. apríl 2024 og allar nánari upplýsingar er að finna á Starfatorgi.