21. febrúar 2024
21. febrúar 2024
Stafrænt Ísland vinnur til alþjóðlegra verðlauna
Stafrænt Ísland vann til verðlauna WSA 2023 í flokki sem snýr að opinberri stjórnsýslu og þátttöku borgara e. Government & Citizen Engagement.
Stafrænt Ísland, sem vinnur að því að bæta stafræna opinbera þjónustu í gegnum Ísland.is, hlýtur verðlaun WSA ((World Summit Awards) í ár. WSA verðlauna árlega verkefni sem stuðla að stafrænni nýsköpun í þágu samfélagslegra umbóta. Verðlaun eru veitt í átta flokkum og fær Stafrænt Ísland verðlaun í flokki sem snýr að opinberri stjórnsýslu og þátttöku borgara (e. Government & Citizen Engagement).
Verkefni frá 182 ríkjum komu til greina en að lokum voru valdir fimm vinningshafar í hverjum flokki. Fjölþjóðlegur hópur sérfræðinga víðsvegar að úr heiminum skipar dómnefnd verðlaunanna. Við afhendingu þeirra í Patagonia í Chile í apríl verður svo valinn einn sigurvegari í hverjum flokki – svonefndur Global winner.
WSA var stofnað fyrir tilstilli Sameinuðu þjóðanna árið 2003 og hefur það markmið að bæta aðgengi allra að stafrænum heimi. WSA metur verkefni út frá áhrifum á nærsamfélagið og hvernig þau styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Stafrænt Ísland er verkefnastofa innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar starfa 11 manns en rúmlega 250 starfsmenn stofnana og samstarfsfyrirtækja miðla til Ísland.is samfélagsins. Stafrænt Ísland aðstoðar opinberar stofnanir við að bæta stafræna þjónustu við almenning með því að gera þjónustuna skýrari, einfaldari og hraðvirkari.