13. október 2022
13. október 2022
Stafrænt Ísland á alþjóðlegum ráðstefnum
Stafrænt Ísland var fengið í pallborðsumræður og flutti erindi um árangur Íslands á tveggja daga alþjóðlegri ráðstefnu stafrænna leiðtoga í Ottowa Kanada.
Global Government Forum stendur á hverju ári fyrir fjölda alþjóðlegra ráðstefna sem snúa að opinberum rekstri og þjónustu. Árleg ráðstefna stafrænna leiðtoga fór fram í Ottowa í byrjun október í boði Kanadísku ríkisstjórnarinnar. Að þessu sinni var leitað til Stafræns Íslands til að segja frá árangri Íslands hvað varðar stafræna umbreytingu.
Í raun má segja að um tvær ráðstefnur hafi verið að ræða AccelerateGov og Digital Summit. AccelerateGov var opin öllum opinberum starfsmönnum og var sömuleiðis streymt. Mikil þörf er á streymi í Kanada en þar eru opinberir starfsmenn að miklu leiti enn í fjarvinnu í kjölfar Covid-19. Um þúsund manns voru skráðir á ráðstefnuna sem er svipað og á Tengjum ríkið. Dagskráin var að mestu byggð á panelumræðu alþjóðlegra stafrænna leiðtoga með það að markmiði að deila þekkingu og reynslu þvert á landamæri.
Umræðuefnin voru mjög fjölbreytt og áhugaverð. Allt frá mannlega þættinum í stafrænum umbreytingum yfir í fjármögnun og praktískar lausnir. Andri Heiðar Kristinsson framkvæmdastjóri Stafræns Íslands tók þátt í panel sem fjallaði um verkefnastýringu og fjármögnun stafrænna verkefna ásamt stafrænum leiðtogum frá Kanada, Braselíu og Bretlandi.
Seinni ráðstefnan Digital Summit var lokaður viðburður þar sem stafrænir leiðtogar deildu reynslu sinni bæði af árangri og vandamálum. Efnistök voru fjölbreytt í takti við þátttakendur og umræðan opinská. Mikill áhugi er á þeim árangri sem Ísland hefur náð á stuttum tíma. Andri Heiðar flutti erindi um þá stafræna umbreytingu sem Ísland hefur gengið í gegnum og hvaða leiðir hafa verið farnar hér á landi. Stafrænn leiðtogi Bandaríkjaforseta og bresku ríkisstjórnarinnar deildu sömuleiðis þeim umbreytingum sem hafa átt sér stað í þeim löndum síðustu misseri.
Árangur Íslands í stafrænni umbreytingum hefur fengið töluverða alþjóðlega athygli og mikil aukning á eftirspurn eftir ráðgjöf. Þrátt fyrir að Ísland sé þegar að standa sig vel í alþjóðlegum samanburði þá er enn mikið verk hvað varðar bætta stafræna þjónustu hins opinbera. Við erum kappsöm þjóð sem viljum vera leiðandi á alþjóðavísu en umfram allt er markmið Stafræns Íslands að styðja við stofnanir í að veita betri stafræna þjónustu.