Fara beint í efnið

13. apríl 2022

Staða Covid-19 á Íslandi

Yfirstandandi bylgja ómíkron afbrigðisins er enn á mikilli niðurleið hér á landi þrátt fyrir að engar opinberar sóttvarnir hafi verið í gildi frá 25. febrúar sl.

Sóttvarnalæknir - logo

Daglega greinast nú um 100-200 manns sem skýrist að einhverju leyti af færri teknum sýnum en áður.

Aðalástæða færri smita nú en áður er líklega sú, að í íslensku samfélagi hefur náðst víðtækt ónæmi gegn Covid-19 eða svokallað hjarðónæmi. Víðtækt ónæmi hefur fyrst og fremst náðst vegna útbreiddra smita í samfélaginu en einnig vegna góðrar þátttöku í bólusetningum. Bólusetning kemur fyrst og fremst í veg fyrir alvarleg veikindi af völdum Covid-19 og hefur útbreidd bólusetning þannig gert okkur kleift standast útbreiddan faraldur með lágmarks alvarlegum afleiðingum.

Í dag hafa um 184.000 manns hér á landi greinst með Covid-19. Hins vegar er líklegt að enn fleiri hafi tekið smit án þess að greinast. Sóttvarnalæknir, í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu, hefur staðið fyrir mælingum á mótefnum gegn Covid-19 til að kanna raunverulega útbreiðslu smita. Fyrri kannanir hafa bent til, að allt að tvöfalt fleiri hafi raunverulega smitast en greinst. Nú stendur yfir ný rannsókn á höfuðborgarsvæðinu á vegum sóttvarnalæknis og Íslenskrar erfðagreiningar þar sem könnuð verður mótefnastaða landsmanna og munu niðurstöður væntanlega liggja fyrir á næstu vikum. Niðurstöðurnar munu bæta við skilning á faraldsfræði Covid-19 og munu hjálpa til við ákvarðanir um opinberar sóttvarnaráðstafanir.

Hverjar eru framtíðarhorfur Covid-19 hér á landi?

Þó að staða Covid-19 faraldursins sé góð hér á landi þessa stundina þá eru nokkur óvissa um þróun hans á næstu mánuðum. Óvissan tengist helst þáttum er lúta að varanleika þess ónæmis sem nú hefur náðst og tilkomu nýrra afbrigða kórónaveirunnar. Endursmit af völdum Covid-19 eru fremur fátíð og hafa verið staðfest hjá rúmlega 10% af þeim sem til þessa hafa greinst. Hversu lengi ónæmi af völdum fyrri smita varir er auk þess ekki vitað. Þó að líklegt sé að fyrri smit muni að minnsta kosti vernda gegn alvarlegum veikindum þegar endursmit verða, þá er ekki loku fyrir það skotið að með tímanum muni ónæmið dvína og ný útbreiðsla verði jafnvel af völdum ómícron afbrigðisins.

Einnig er óvissa uppi um tilkomu nýrra afbrigða kórónaveirunnar. Í dag er talið að um 50% íbúa heimsins hafi smitast af völdum Covid-19. Þannig mun faraldurinn verða áfram í gangi í heiminum í einhvern tíma sem gefur nýjum afbrigðum tækifæri til að myndast og dreifa sér. Hvort smithæfni nýrra afbrigða verður meiri en af völdum fyrri afbrigða, hvort alvarleiki veikindanna verður meiri eða hvort fyrri sýkingar eða bóluefni muni veita einhverja vernd, er ógerlegt að spá fyrir um.

Helstu verkefni sóttvarnayfirvalda á næstu vikum og mánuðum vegna Covid-19 verða því eftirfarandi:

  • Áfram þarf að taka sýni til greiningar og raðgreiningar hjá einstaklingum sem hugsanlega eru smitaðir af Covid-19 til að fylgjast með útbreiðslu og tilkomu nýrra afbrigða.

  • Fylgjast þarf með endingu ónæmis gegn Covid-19 og hvort þörf verði á reglubundnum örvunarbólusetningum.

  • Endurmeta þarf núverandi viðbragðsáætlanir í ljósi reynslunnar af Covid-19.

  • Taka þarf saman gögn og rýna aðgerðir almannavarna og sóttvarnalæknis

  • Stjórnvöld þurfa að vera tilbúin til að grípa til opinberra sóttvarnaráðstafana innanlands og/eða á landamærum ef útbreiddur og skæður faraldur er í uppsiglingu.

  • Efla þarf getu heilbrigðisstofnana til að sinna sínum verkefnum bæði hvað varðar Covid-19 og aðra þjónustu.


Sóttvarnalæknir