9. júlí 2025
9. júlí 2025
Spilling embættismanna, rógburður og hártog - Yfirrétturinn á Íslandi V
Út er komið fimmta bindi Yfirréttarins á Íslandi. Dómar og skjöl. Ritröðin er gefin út af Þjóðskjalasafni Íslands og Sögufélagi í samstarfi við Alþingi. Yfirrétturinn var æðsta dómstig innanlands á árunum 1563-1800 en í ritröðinni sem telja mun 10 bindi verða birt skjöl frá árinu 1690-1800. Skjöl yfirréttarins veita einstaka innsýn í íslenskt samfélag á 18. öld.

Yfirrétturinn var æðsti áfrýjunardómstóll innanlands og þegar dómsmál voru tekin fyrir þar lá oftar en ekki áralöng óvild að baki málaferlunum. Auk þess að vera vitnisburður um ýmsar hliðar á lífi almennings eru skjöl Yfirréttarins heimild um þekkta einstaklinga úr Íslandssögunni á borð við Skúla Magnússon og innbyrðis átök æðstu embættismanna landsins.
Í þessu fimmta bindi útgáfu dóma og skjala yfirréttarins birtast dómar áranna 1742–1746. Málin sem tekin voru fyrir í yfirréttinum varpa mörg ljósi á þekkt minni úr íslenskri söguvitund: Ólétt vinnukona var flutt hreppaflutningum yfir sýslumörk, kýr var tekin af fátækum eldri hjónum upp í skuld og alþýðumaður var dæmdur til dauða fyrir hórdómsbrot. Óvenjulegt verður þó að teljast að þetta var í annað sinn sem maðurinn hlaut dauðadóm.
Einnig koma við sögu jarðarkaup og óvenju há skuld kirkjuhaldara sem reiknuð var út með styrk trigonometriæ og falsaðrar statútu, hjón rifu í hár sóknarprests síns og annar prestur sótti sýslumann til saka fyrir rógburð. Í fyrri hluta bindisins eru deilur um embættisverk sýslumannsins Bjarna Halldórssonar fyrirferðarmiklar. Þær leiddu til þess að hann missti embætti sitt um tíma og varpar útgáfan ljósi á aðdraganda þess.
Ritstjórar útgáfunnar eru Gísli Baldur Róbertsson, Jóhanna Þ. Guðmundsdóttir og Ragnhildur Hólmgeirsdóttir. Alþingi styrkir útgáfuna. Bókin er fáanleg í helstu bókaverslunum auk vefverslunar Sögufélags hér.