20. september 2024
20. september 2024
Sneisafull dagskrá Vísindadagsins
Vísindadagur Heilbrigðisvísindastofnunar Háskólans á Akureyri og Sjúkrahússins á Akureyri fór fram í gær, 19. september, í fundarherberginu Kjarna og í streymi.
Vísindadagurinn fór fram í 15 skiptið og að vanda var dagskráin metnaðarfull og fjölbreytt. Yfirskrift dagsins var: Forsendur góðrar heilbrigðisþjónustu eru rannsóknir og þróunarvinna ásamt möguleikum til að nýta sér nýja þekkingu.
Hátíðarerindið hélt Dr. Árún K. Sigurðardóttir, prófessor í hjúkrunarfræði við HA og sérfræðingur í sykursýki og langvinnum sjúkdómum. Alls voru 14 fyrirlestrar sem vörpuðu skýru ljósi á það öfluga vísindastarf sem á sér stað á SAk.
„Við vildum koma gervigreindinni að á Vísindadeginum og fengum því þrjú flott erindi frá sérfræðingum í faginu sem örugglega hafa hreyft við fólki og vakið til umhugsunar um hvernig við getum betur nýtt okkur tæknina,“ sagði Laufey Hrólfsdóttir, deildarstjóri mennta- og vísindadeildar og lektor við heilbrigðisvísindastofnun HA sem hélt utan um undirbúning dagsins.
Áfram við!
Undir liðnum Áfram við voru veittar viðurkenningar fyrir klíniska kennslu á SAk, úthlutun úr Vísindasjóði SAk var opinberuð og hvatningarstyrkur veittur til ungs vísindamanns á SAk.
Tilnefningar til viðurkenninga fyrir klíniska kennslu komu frá nemendum. Læknanemar töldu lyflækningadeild standa best að klíniskri kennslu en hjúkrunarfræðinemar gáfu almennri göngudeild sitt atkvæði. Þá fengu nemar einnig tækifæri til að tilnefna framúrskarandi kennara Handhafar viðurkenninganna eru eftirtalin:
Oddur Ólafsson, sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum.
Lovísa Guðjónsdóttir, sjúkraliði á geðdeild.
Sólrún Drífa Steindórsdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur.
Úthlutun styrkja úr Vísindasjóði SAk var einnig opinberuð og fengu eftirfarandi verkefni styrk:
Forsendur góðrar heilbrigðisþjónustu eru rannsóknir og þróunarvinna ásamt möguleikum til að nýta sér nýja þekkingu. Aðalumsækjandi: Björn Gunnarsson.
Prepregnancy BMI, optimal gestational weight gain and maternal/birth outcomes. Aðalumsækjandi: Laufey Hrólfsdóttir.
Prevalence of Obstructive Sleep Apnoea (OSA) among 4-9 Years old Children in the General Population. Aðalumsækjandi: Hannes Petersen.
Svefngæði og heilsa fólks með offitu. Afturskyggn sjúkraskrárrannsókn. Aðalumsækjandi: Ragnheiður Harpa Arnardóttir.
Sérstakan hvatningastyrk fyrir ungan vísindamann á SAk hlaut María Kristbjörg Árnadóttir, sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum, fyrir verkefnið sitt Gæði útkalla með læknismannaðri sjúkraflugvél frá Akureyri. Meðfram vinnu sinni á SAk hefur María stundað tveggja ára nám hjá Skandinavíska Svæfingalæknafélaginu (SSAI) í Critial Emergency Medicine. Hluti af því námi var að gera rannsóknarverkefni.
Sjúkrahúsið á Akureyri óskar öllum handhöfum viðurkenninga og styrkja til hamingju með árangurinn!