1. júlí 2024
1. júlí 2024
Skráning hafin á skógaráðstefnu NordGen 2024
Árleg ráðstefna skógasviðs norræna erfðavísindasamstarfsins NordGen fer fram á hóteli jólasveinsins í Rovaniemi í Norður-Finnlandi dagana 18. og 19. september í haust undir yfirskriftinni „Endurnýjun skóga í norðri – fortíð, nútíð og framtíð“.
Ráðstefnuna heldur NordGen) í samvinnu við finnsku náttúruvísindastofnunina Luke, finnska landbúnaðar- og skógarmálaráðuneytið og skógfyrirtækin Siemen Forelia, Silva Lapponica Oy og Fin Forelia.
Fyrri daginn verður málþing (ekki í streymi) og veggspjaldakynning en þann seinni verður skipulögð skoðunarferð með áherslu á endurnýjun skóga í norðri. Bráðabirgðadagskrá hefur nú verið birt á vef ráðstefnunnar ásamt hagnýtum upplýsingum og skráningarhlekk. Síðasti skráningardagur er föstudagurinn 16. ágúst 2024.
Doktorsnemar, nýdoktorar, ungt vísindafólk eða annað ungt fagfólk á möguleika á styrk frá NordGen til að sækja ráðstefnuna gegn því að leggja til veggspjöld þar sem fjallað er um erfðaauðlindir skóga, plöntuframleiðslu eða endurnýjun skóga. Útdrátt og tengiliðaupplýsingar skal senda á forest@nordgen.org fyrir 1. ágúst ef óskað er að leggja til veggspjald sækja um styrk. Einnig má kynna veggspjald án þess að sækja um styrk, en þá er skilafrestur til 10. ágúst á sama netfangið.