Fara beint í efnið

20. ágúst 2021

Sjúkratryggingar Íslands semja um fjölbreytt COVID úrræði

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa á síðustu dögum samið um fjölda COVID tengdra úrræða til að styrkja innviði heilbrigðiskerfisins. Þetta er samkvæmt tilmælum heilbrigðisráðherra í kjölfar þess að ríkisstjórnin fundaði um langtímaviðbúnað og styrkingu innviða vegna faraldursins.

Sjúkratryggingar lógó

Meðal annars hefur verið gerður samningur við Reykjalund um að taka við sjúklingum til endurhæfingar frá Landspítala, samningur um farsóttarhús á Akureyri auk þess sem samið hefur verið við Klíníkina um að leggja til aukamannafla fyrir Landspítala. Öll þessi úrræði eru þegar komin í notkun en í gær var farsóttarhús opnað á Akureyri. Sem fyrr er það Rauði krossinn sem annast rekstur hússins.

Fleiri samningar eru í vinnslu hjá Sjúkratryggingum með það fyrir augum að gera innviði samfélagsins betur í stakk búna til að takast á við faraldurinn. Meðal annars er unnið að samningi um sérstaka COVID deild fyrir aldraða, en slík deild var sett tímabundið á fót fyrr í faraldrinum.

Sjúkratryggingar vilja koma á framfæri þökkum til allra samningsaðila sinna fyrir skjót og góð viðbrögð við erfiðar aðstæður.