Fara beint í efnið

16. september 2024

Sjúkraliðinn sem lærði forritun og hjúkrun

HSU á Selfossi // Margrét Björk Ólafsdóttir, hjúkrunarstjóri heilsugæslu HSU

Mynd Magga 2

Margrét Björk Ólafsdóttir er hjúkrunarstjóri heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi, en þar starfa um 20 hjúkrunarfræðingar og 10 sjúkraliðar. Margrét fæddist á fæðingarheimilinu í Reykjavík og er uppalin í Breiðholti þar sem hún gekk í Seljaskóla. Hún útskrifaðist sem sjúkraliði úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og sem lyfjatæknir úr Fjölbrautaskólanum í Ármúla. Hjúkrunarfræðina kláraði hún svo við Háskólann á Akureyri árið 2010 og bætti seinna við sig diplómu í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Margréti leiðist ekki að læra og meðan maðurinn hennar var í skiptinámi í lögfræði við Baylor University í borginni Waco í Texas í lögfræði smellti hún sér í eins árs nám í forritun.

SVAKALEGT KEPPNISSKAP
Margrét er er gift Viktori Stefáni Pálssyni lögfræðingi, en hann starfar sem sviðsstjóri hjá Matvælastofnun. Saman eiga þau fjögur börn: Anton Breka 24 ára, tvíburana Glódísi Ólöfu og Brynhildi Sif 22 ára og Arndísi Emblu 11 ára. „Helstu áhugamálin utan vinnu eru félagsskapur með vinum, útilegur, ferðalög og samvera með fjölskyldunni. Ég reyndi að byrja að stunda golf, en árangurinn var ekki nægilega góður strax og þar sem ég er með svakalega mikið keppnisskap, þá var það ekki að henta mér að vera léleg. En kannski tek ég það upp aftur seinna.“

LEITAÐI SNEMMA Í UMÖNNUN
„Sem unglingur vann ég margvísleg störf, en eftir tvítugt fór ég að leita í umönnunarstörf eins og á Hrafnistu í Reykjavík, Lyfju og svo í Hraunbúðum í Vestmannaeyjum, en ég bjó þar í 6 ár þar sem maðurinn minn fór að vinna sem sýslufulltrúi eftir útskrift úr lögfræðinni. Ég vann einnig hjá Lyf og heilsu í Eyjum.”

FJARNÁMIÐ VIÐ HA
“Árið 2002 byrjaði fjarnám í hjúkrun í Háskólanum á Akureyri og mörg í Vestmannaeyjum hófu það nám, en þar sem ég var ný búin að eignast tvíbura, þá komst ég ekki en áhuginn var kviknaður. Ég flutti svo á Selfoss árið 2006 og þá byrjaði fjarnám þaðan svo ég skellti mér og sé ekki eftir þeirri ákvörðun! Meðfram hjúkrunarnáminu vann ég tvö sumur á heilsugæslunni á Selfossi í heimahjúkrun og á Landspítala og Ljósheimum.”

FRÁ KUMBARAVOGI Á SELFOSS
“Eftir útskrift úr hjúkrunarfræði fór ég að vinna á hjúkrunarheimilinu Kumbaravogi á Stokkseyri þar sem tók fljótlega við sem hjúkrunarstjóri og var þar þangað til heimilið lokaði 2017. Byrjaði þá á heilsugæslu HSU á Selfossi í febrúar 2017 og tók við fyrst sem deildarstjóri og svo í afleysingu sem hjúkrunarstjóri 2020 og verið þar síðan.“

FJÖLBREYTT STARFSEMI
Starf Margrétar felur aðallega í sér að halda utan um hjúkrunarhluta heilsugæslunnar og öll verkefni þar sem tengjast hjúkrun og starfsfólki. „Okkar svæði er Árborg og þar erum við til dæmis með skólahjúkrun í fimm grunnskólum og einum fjölbrautaskóla. Jafnframt sinnum við ungbarnavernd og fjölbreyttum móttökum: sykursýkismóttöku, lífstílsmóttöku, móttöku fyrir 65 og eldri og hjúkrunarmóttöku. Einnig er heimahjúkrun og fleira á okkar könnu.“

MIKIL SAMHELDNI
Hvað er það besta við vinnustaðinn? „Það besta við vinnustaðinn er að það er alltaf gaman að koma í vinnuna og spennandi verkefni að takast á við. Starfsfólkið er alveg einstakt og samheldnin mikil. Ég hef aldrei unnið á stað þar sem öllum kemur svona vel saman og samvinnan er svona góð. Mikill metnaður er hjá starfsfólki fyrir starfinu sína. Það er ekki sjálfgefið að hafa yfir að ráða mjög fjölbreyttum starfshópi sem vill allt fyrir alla gera! Ekki skemmir heldur fyrir að við erum dugleg að hittast utan vinnu og bralla ýmislegt saman.“

FJARHEILBRIGÐISÞJÓNUSTA
Eru einhverjar nýjungar hjá heilsugæslu HSU á Selfossi, sem gaman er að segja frá? „Fyrir rúmu ári byrjuðum við að nota Dignio, sem er í raun fjarheilbrigðisþjónusta. Þar erum að fylgjast með lífsmörkum ákveðins hóps í fjarvöktun. Fólk mælir sig sjálft heima og við það sendast upplýsingarnar til okkar og við fylgjumst með þeim daglega. Við tökum líka þátt í verkefni sem heitir Gott að eldast og er á vegum félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis. Þar erum við að vinna að samþættingu heimahjúkrunar og heimaþjónustu velferðarþjónustunnar. Að auki langar mig til að nefna, að við erum hægt og rólega að vinna í því að efla líknar- og lífslokameðferð í heimahúsum, sem mikil eftirspurn er fyrir,“ segir Margrét.

LÍFSSTÍLSMÓTTAKA BARNA OG HEIMASPÍTALI
Margrét nefnir að tveir hjúkrunarfræðingar á heilsugæslunni séu enn fremur að vinna að nýju verklagi innan heilsugæslunnar, en það er lífstílsmóttaka fyrir börn. Þetta er hluti af meistaranámsverkefni þeirra í hjúkrun. „Einnig erum við nýlega byrjuð með svokallaðan Heimaspítala, sem er bráðavitjunarteymi læknis og hjúkrunarfræðings, sem fara heim til fólks sem er 75 ára og eldra og skilgreint sem bráðveikt. Einungis heimahjúkrun, bráðamóttaka og lyflækningadeild, ásamt sjúkraflutningum, geta vísað í þetta teymi. Þessi högun getur fækkað til muna legudögum fólks á deildum sem og komum á bráðamóttöku og lofar mjög góðu,” segir Margrét Björk Ólafsdóttir að lokum.

h1
h3
h22

Á fyrstu hópmyndinni eru frá vinstri til hægri: Bjarnheiður Böðvarsdóttir hjúkrunarfræðingur, Sigríður Einarsdóttir, hjúkrunarfræðingur, Anna Margrét Magnúsdóttir aðstoðardeildarstjóri heilsugæslu, Þórunn Helgardóttir, hjúkrunarfræðingur, Guðrún Jóna Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur og Thelma Dröfn Ásmundsdóttir hjúkrunarfræðingur.

Á annarri hópmyndinni eru: Berglind Eva Arnardóttir sjúkraliði, Viktoría Bergmann Halldórsdóttir læknir, Anna Guðríður Gunnarsdóttir, sérfræðingur í ungbarnahjúkrun, Andrea Úlfhéðinsdóttir læknir, Birkir Víðisson sérnámslæknir og Jóhann Guðmundsson læknir.

Á þriðju hópmyndinni eru Jenný Ágústa Abrahamsen sjúkraliði, Erla Guðrún Lúðvíksdóttir sjúkraliði, Sigrún Helga Högnadóttir sjúkraliði, Elín Rún Ström Kristjánsdóttir sjúkraliði og Inga Hrönn Árnadóttir sjúkraliði.

Viðtal: Stefán Hrafn Hagalín
Myndir: Valgarður Gíslason