17. janúar 2023
17. janúar 2023
Sjúkrahúsið á Akureyri fær mjög jákvæðar umsagnir í árlegri gæðaúttekt
„Lítum á allar athugasemdir sem tækifæri til að verða betri,“ segir Hannes Bjarnason, gæðastjóri SAk.
Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) fékk mjög góðar umsagnir frá alþjóðlega faggildingarfyrirtækinu Det Norske Veritas (DNV-GL), sem nýverið lauk ítarlegri úttekt á þremur starfsemisþáttum sjúkrahússins.
DNV er vottunaraðili alþjóðlegu vottunarinnar DNV GL Healthcare sem er gæðastaðall fyrir sjúkrahús ásamt ISO9001 sem er gæðastjórnunarstaðall. Fyrirtækið er eitt það öflugasta á sínu sviði í heiminum. Full úttekt á allri starfsemi SAk er gerð á þriggja ára fresti en þess á milli er úttekt á einstökum starfsemisþáttum SAk.
SAk hlaut fyrst DNV GL Healthcare vottun 2015 og ISO9001 vottun árið 2019, fyrst allra íslenskra heilbrigðisstofnana. ISO vottunin var endurnýjuð 2021 en næsta endurnýjun er á dagskrá 2024.
Hannes Bjarnason, gæðastjóri SAk, segir að SAk hafi lagt í mikla vegferð á sviði gæðamála á vormánuðum 2013. „Afraksturinn var ekki bara sá að SAk fékk vottun á allri starfseminni samkvæmt DNV GL Healthcare 2015 og ISO 9001 staðlinum 2019 því sama ár fékk upplýsingatæknideild SAk (UTD) ISO 27001 vottun sem var endurnýjuð í fyrra og jafnlaunavottun fyrir sjúkrahúsið var staðfest snemma árs 2020 og endurnýjuð í fyrra.“
Hann segir að hver og ein vottun sé merkileg í sjálfu sér og afrakstur mikillar vinnu allra starfsmanna. „En vottunin er enginn endapunktur. Til þess að viðhalda henni þarf að fylgja gríðarlega ströngum aga og verklagsferlum á öllum sviðum starfseminnar á hverjum einasta degi.“
Tækifæri til að gera betur
Gæðaúttektin nú beindist að þremur þáttum: Í fyrsta lagi að klínískum þáttum, í öðru lagi stjórnkerfi SAk og upplýsingastjórn og loks að húsnæðinu sjálfu. Engin alvarleg athugasemd var gerð en 7 minni háttar athugasemdir komu fram og segir Hannes að auðvelt hafi reynst að bæta úr þeim.
„Stjórnendur sjúkrahússins hafa aldrei litið á gæða- og eftirlitsferlið sem einhverja kvöð, þvert á móti. Við lítum á allar athugasemdir sem tækifæri til umbóta að verða betri. Eftirlitsaðilarnir eru á sama máli. Þeir segja að það sé gott að koma hingað, að við tökum ábendingum vel og bregðumst undantekningalaust vel við.“
Eykur öryggi skjólstæðinga og starfsfólks
Vottunarstaðlar eru í raun frábær stjórnunarverkfæri, að sögn Hannesar. „Á stórum vinnustað eins og Sjúkrahúsinu á Akureyri er urmull af verklagsferlum og reglum sem fara þarf nákvæmlega eftir, hvort sem vinnustaðurinn er gæðavottaður eða ekki. Vottunarstaðlarnir hjálpa okkur til að gera vinnubrögðin eins markviss og nokkur kostur er. Við erum með rúmlega 3.600 útgefin gæðaskjöl og nákvæma skilgreiningu á því hvað við erum og hvað við gerum í hinum ýmsu aðstæðum. Þetta tryggir að verklagið er alltaf markvisst og faglegt, það eykur öryggi skjólstæðinga og starfsfólks og bætir þjónustuna.“
Gæðaverðirnir vinna frábært starf
Hannes segir að auk þess aðhalds sem reglubundnar úttektir DNV-GL veiti, fari reglulega fram innri úttektir á einstökum deildum og starfsemisþáttum á vegum sjúkrahússins sjálfs. „Ef fram koma minni háttar frávik er því kippt í liðinn á viðkomandi deild en ef um stærri frávik er að ræða, kemur það inn á mitt borð sem gæðastjóra.“
Hann segir að á hverri deild sjúkrahússins starfi 1-2 gæðaverðir. „Þeir eru ábyrgir fyrir verklagsreglum, verklagi og skjalfestingu þess. Þeir eru fótgönguliðarnir í framvarðasveitinni okkar á sviði gæðamála og vinna frábært starf. Það er hreinlega ekki hægt að hrósa þeim nógu mikið,“ segir Hannes Bjarnason, gæðastjóri SAk, að lokum.