8. mars 2024
8. mars 2024
SIT-nemar hvaðanæva úr Bandaríkjunum heimsóttu Mógilsá
Hópur háskólanema víða að úr Bandaríkjunum heimsótti starfstöð Lands og skógar á Mógilsá nýverið og fræddist um stofnunina og viðfangsefni hennar.
Nemendurnir dvelja á Íslandi næstu mánuði á vegum SIT-stofnunarinnar, School for International Training. Stofnun þessi var formlega sett á fót árið 1964 en rekur þó rætur sínar allt aftur til 1932 þegar dr Donald Watt hratt af stað tilraun með alþjóðlega lifnaðarhætti. Þar var leitast við að efla skilning milli þjóða og menningarheima með því að senda bandaríska nema vítt og breitt um heiminn til að búa þar með fjölskyldum og víkka sjóndeildarhring sinn.
Frá því á sjöunda áratugnum hefur stofnunin starfað eftir þessum upphaflegu markmiðum og um það leyti fléttaðist friðarstarf inn í starfsemina. Einnig hefur meir og meir verið hugað að ýmsum alþjóðlegum úrlausnarefnum samtímans. Af því sem nú er í brennidepli má nefna loftslags- og umhverfismál, þróunarmál og ójöfnuð, menntun og samfélagsbreytingar, milliríkjastjórnmál og vald, heilsu og velferðarmál í heiminum, sjálfsmynd og seiglu fólks, frið og réttlæti.
Nemendurnir sem nú dvelja á Íslandi komu í heimsókn á Mógilsá 27. febrúar og fengu þar kynningu á hinni nýju stofnun, Landi og skógi, og þá sérstaklega starfi og verkefnum rannsóknar- og þróunarsviðsins en líka á verkefnum Íslenskrar skógarúttektar sem snúast um vöktun skóglendis á Íslandi, samantekt gagna um kolefnisbúskap skóganna og fleira.
Sem fyrr segir eru þessir nemendur víðs vegar að úr Bandaríkjunum og stunda margvíslegt nám, allt frá kennslufræðum til haffræði svo nokkuð sé nefnt. Umsjón með hópnum hér á landi hefur dr Christine Palmer sem um leið er aðalleiðbeinandi þeirra hér. Christine er mörgum að góðu kunn hérlendis, sérstaklega skógræktarfólki. Hún var nýlega ráðin forstöðumaður School of International Training og hefur aðsetur í Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði.