29. nóvember 2024
29. nóvember 2024
Setjum heilbrigðismálin í forgang – þau varða okkur öll!
Á morgun fara fram kosningar til Alþingis.
Í aðdraganda kosninganna stóð SAk fyrir opnum fundum starfsfólks og fulltrúum framboðana þar sem flokkunum gafst kostur á að kynna sig og svara spurningum starfsfólks. Tilgangur fundanna var að vekja athygli á mikilvægi sjúkrahússins og þeirri þjónustu sem það veitir, ásamt því að varpa ljósi á þær áskoranir sem stofnunin stendur frammi fyrir.
Brýn áhersluatriði SAk
Framkvæmdastjórn SAk leggur mikla áherslu á nauðsyn þess að auka fjárframlög til sjúkrahússins til að mæta vaxandi þörf fyrir þjónustu. Aðgangur að sérfræðiþjónustu óháð búsetu er grundvallaratriði sem tryggja þarf í íslenska heilbrigðiskerfinu. Þetta kom skýrt fram í greinaskrifum Hildigunnar Svavarsdóttur, forstjóra SAk, (sjá hér: Er aðgangur að sérfræðiþjónustu jafnaður óháð búsetu? - Vísir og hér: Uppbygging heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni: Er það á stefnuskránni fyrir þessar kosningar? - Vísir) þar sem hún varaði sérstaklega við þeim afleiðingum sem skortur á fjármögnun gæti haft fyrir heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.
Fundir sem þessir eru mikilvægur vettvangur til að efla tengingu stjórnmálafólks við grunnstoðir samfélagsins og stuðla að upplýstri umræðu um heilbrigðismál.
Framkvæmdastjórnin hvetur starfsfólk og almenning allan til að nýta kosningaréttinn til að tryggja að heilbrigðismálin verði í forgrunni næsta kjörtímabils.