20. október 2025
20. október 2025
Sérsveitin tók þátt í æfingu Nordic Medic Week 2025
Sérsveit ríkislögreglustjóra tók nýlega þátt í árlegri æfingu Nordic Medic Week 2025, sem fór fram í Noregi í ár.

Þrír aðgerðarmenn úr sérsveitinni, með sérhæfingu í bráðaviðbragði, tóku þátt í æfingunni ásamt tveimur bráðatæknum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sem hafa hlotið sérstaka þjálfun til starfa með sérsveitinni.
Æfingarnar eru mikilvægur liður í alþjóðlegu samstarfi og samhæfingu við erlendar sérsveitir. Þær eru hannaðar til að þjálfa bráðaviðbrögð í aðgerðum og efla faglegt samstarf milli þátttökulanda. Markmið æfinganna er að auka þekkingu og færni í viðbrögðum á vettvangi þannig að hægt sé að bæta lífslíkur þolenda í alvarlegum árásum.
Auk Íslands og Noregs tóku sérsveitir frá Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum þátt í æfingunni. Áhersla er lögð á að skapa sem raunverulegastar aðstæður á vettvangi þar sem þátttakendur fá þjálfun í að taka réttar ákvarðanir undir miklu álagi – líkt og þeir þurfa að gera í daglegum störfum sínum.
