Fara beint í efnið

19. september 2023

Sérnámsstöður lækna á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri - Samræmt ráðningarferli fyrir stöður í febrúar 2024

Lausar eru til umsóknar sérnámsstöður lækna innan þeirra greina lækninga þar sem viðurkennt sérnám fer fram á Landspítala og á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Starfshlutfall er 100% eða samkvæmt samkomulagi.

Læknanemar

Upphafsdagur ráðningar í sérnámsstöðurnar er 27. febrúar 2024 en þann dag er móttökudagur, annars getur upphaf starfs verið samkvæmt samkomulagi við kennslustjóra hverrar sérgreinar fyrir sig.

Sérnám fer að mestu leyti fram á Landspítala en einnig á Sjúkrahúsinu á Akureyri í flestum greinum. Ef samvinna hefur verið staðfest milli LSH og SAk um sérnám í viðkomandi sérgrein er gert ráð fyrir að sérnámslæknar vinni á báðum stöðum. Það sérnám sem hér er auglýst eru einu sérnámsleiðir viðkomandi greina á Íslandi sem samþykktar hafa verið af mats- og hæfnisnefnd í samræmi við reglugerð 856/2023. Sérnám samræmist viðurkenndri marklýsingu viðkomandi greinar og fylgir vönduðu mats- og handleiðslukerfi þjálfaðra handleiðara.

Doktorsnám er mögulegt samhliða klínísku sérnámi. Ef fyrir liggur samþykkt rannsóknaráætlun fyrir doktorsnám getur umsækjandi sótt um slíka stöðu. Að lágmarki væri þá um 50% ráðningu við Landspítala að ræða eða eftir samkomulagi og klínískt sérnám lengt sem því nemur og í samræmi við reglugerð 856/2023. Taka skal óskir um slíkt sérstaklega fram í athugasemdum við umsókn og í kynningarbréfi.

Nánari upplýsingar

Kynningarmyndband um starfið á Sjúkrahúsinu á Akureyri: Sérnám á Sjúkrahúsinu á Akureyri - YouTube

Umsóknir

Sótt er um sérnámið á Starfatorgi með því að smella á viðkomandi hlekk í listanum hér að neðan.

Ef umsækjandi ætlar að sækja um fleiri en eina sérgrein þarf að sækja um hverja og eina í aðskildri umsókn.

Almennar upplýsingar: Laufey Hrólfsdóttir, forstöðmaður deildar mennta og vísinda – laufey@sak.is