28. október 2025
28. október 2025
Sendinefnd í Skandinavíu: „Mun meiri áhugi á SAk og Akureyri en ég hafði búist við“
Tíu manna sendinefnd íslenskra heilbrigðisyfirvalda hefur ferðast um Skandinavíu með það að markmiði að laða íslenska lækna aftur heim. Ragnheiður Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga, var fulltrúi SAk í ferðinni.

Sendinefndin með sendiherra Íslands í Stokkhólmi. Mynd: aðsend ruv.is
Talið er að um 800 íslenskir læknar starfi á erlendri grundu, flestir í Svíþjóð, en lítill hluti þeirra starfar utan Norðurlanda. Sendinefndin hélt kynningar á nýjum kjarasamningum í fjórum borgum í Svíþjóð og Danmörku. „Við hittum tæplega 100 lækna sem hafa ýmist lokið sérnámi eða eru í sérnámi“ segir Ragnheiður Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga á SAk, og bætir við: „Greinilegt er að meirihluti læknanna sem mættu stefnir á að snúa aftur heim á næstu árum. Mun meiri áhugi var á SAk og Akureyri en ég hefði búist við. Ég tel að við eigum eftir að ná að fjölga sérfræðilæknum og sérgreinum á næstu árum og byggja þannig upp enn öflugri þjónustu.“ segir Ragnheiður.