Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

3. desember 2025

Samstarf um stuðning við einstaklinga sem ljúka afplánun

Embætti ríkislögreglustjóra og fangelsismálastofnun boðuðu í morgun til stofnfundar á Hólmsheiði vegna samstarfsverkefnisins Exit.

Fundurinn markar upphaf formlegs samstarfs ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka um stuðning við einstaklinga sem ljúka afplánun og vilja hverfa frá ofbeldisfullum eða afbrotatengdum lífsstíl, og taka upp nýtt og heilbrigt líf. Tugir aðila standa að verkefninu og koma frá ríki, sveitarfélögum og félagasamtökum og er verkefnið stutt af félags- og húsnæðismálaráðherra.

Markmið samstarfsins er að bjóða upp á einstaklingsmiðaða þjónustu og stuðning sem tekur mið af margþættum þörfum einstaklinga sem hafa brotið af sér, þar á meðal aðstoð við húsnæðisleit, meðferð, félagslega aðstoð, atvinnuráðgjöf og stuðning. Með þessu á að draga úr líkum á ítrekuðum afbrotum.

Um Exit:

Hvatinn að verkefninu eru alvarlegar áhyggjur af fjölgun ofbeldisbrota og þeirri staðreynd að hluti fullorðinna brotamanna, einkum þeirra sem tengjast ofbeldi, fíkniefnum eða skipulagðri brotastarfsemi á erfitt með að slíta tengsl við fyrra umhverfi eftir afplánun. Þeir sem reyna að byrja upp á nýtt standa oft án húsnæðis, atvinnu eða félagslegs stuðnings, sem eykur hættu á endurkomu í afbrot.

Markmið verkefnisins er að þróa og innleiða samræmt Exit-úrræði fyrir fullorðna sem vilja slíta tengsl við afbrotaumhverfi, í samstarfi Fangelsismálastofnunar, lögreglu, lykilstofnana, frjálsra félagasamtaka og þeirra sveitarfélaga þar sem einstaklingurinn á lögheimili. Með því verður vonandi dregið úr endurkomu í fangelsi og ítrekuðum ofbeldisbrotum, tryggt öryggi og endurhæfing þeirra sem vilja hætta afbrotum, og umbun og hvati tengdur við þátttöku í úrræðinu.

Nánari upplýsingar veitir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, helena.sturludottir@logreglan.is eða í síma 444-2570.