13. nóvember 2025
13. nóvember 2025
Samstarf og innsýn í málefni landamæra
Dagana 13.–16. október sl. komu þrír fulltrúar frá Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu (Frontex) í heimsókn til Íslands.

Markmið heimsóknarinnar var að efla samstarf og samráð við stofnanir sem koma að landamæraeftirliti, hælisumsóknum og endursendingum. Fulltrúarnir fengu kynningar á aðstæðum og þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í málefnum landamæra, s.s. í tengslum við skipulagða brotastarfsemi, áhættur og þróun á sviði landamæraöryggis.
Ísland hefur um árabil tekið virkan þátt í verkefnum Frontex, m.a. með setu í stjórn stofnunarinnar og í gegnum Tækja- og mannauðsbanka stofnunarinnar, þar sem flugvélin TF-SIF frá Landhelgisgæslunni hefur verið helsta framlag Íslands.
Í heimsókninni voru fulltrúar Frontex kynntir fyrir helstu samstarfsaðilum á Íslandi og fóru í heimsóknir til:
Flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum
Landamæradeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu
Landhelgisgæslunnar
Skattsins- Tollgæslunnar
Útlendingastofnunar
Ríkislögreglustjóra – Landamæradeildar, Farþegaupplýsingadeildar og Heimferða- og fylgdadeildar
Í heimsóknunum var farið yfir stöðu og umfang verkefna tengdu landamæraeftirliti, hælisbeiðnum og endursendingum, auk innleiðingar á EES kerfinu og stefnumótun í samræmi við nýja sáttmála ESB um innflytjendamál og hælisleitendur. Þá var einnig rætt um stefnu í samþættri landamærastjórnun, viðbragðsáætlanir, menntunar- og þjálfunarmál svo fátt eitt sé nefnt.
Landamæradeild ríkislögreglustjóra vill koma á framfæri sérstökum þökkum til allra þeirra sem tóku á móti fulltrúum Frontex og veittu þeim dýrmæta innsýn í starfsemi og stöðu mála á Íslandi.