Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

19. nóvember 2025

Samræmd þjónusta á HSU

Í byrjun árs 2023 var sótt um styrk fyrir verkefninu ,,Notkun Erkitýpu - sjúklingi til greiningar á stöðu bráðaþjónustu á Suðurlandi”. Tilgangur verkefnisins er að samræma þjónustu þvert á stofnunina.

Verkefnið snéri að því að semja lýsingar á 10 erkitýpu sjúklingum sem lýsa lykilþáttum í þjónustuþörf einstaklinga sem leita til þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Gætt var að því að litið væri til fjölbreyttra þátta þar með barna og fullorðinna, líkamlegra og geðrænna kvilla ásamt veikindum og slysum.

Verkefnahópur með fulltrúum frá nokkrum starfsstöðum stofnunarinnar fór yfir erkitýpurnar og skráði niður hvernig hver og einn færi skref fyrir skref í gegnum þjónustuna á mismunandi tímum sólarhrings fyrir allar starfsstöðvar.

Markmið verkefnisins var að greina styrkleika og áskoranir við veitingu þjónustu á þjónustusvæði HSU, allt frá Hellisheiði í vestri til Hafnar í austri. Niðurstöðurnar voru nýttar til að vinna umbætur á þjónustustýringunni og flæði notenda þannig að hægt sé að tryggja öryggi, hagkvæmni og jafnræði.

Dæmi um verklög, leiðbeiningar, námskeið eða innleiðingar á nýjum verkfærum sem voru unnin í kjölfar verkefnisins:

Verklag um viðbrögð við ofbeldi eða ógnandi hegðun, innleiðing á rafrænum öryggishnöppum fyrir starfsfólk, verklag fyrir aðstæður þegar sjúklingur kemur með brjóstverk eða einkenni frá brjóstkassa á heilsugæslu þar sem ekki er starfandi bráðamóttaka, námskeið fyrir starfsfólk um mat á sjálfsvígsáhættu þjónustuþega og leiðbeiningar um hvert skal leita eftir upplýsingum um áfallahjálp ásamt verklagsreglum um ferlið þegar skyndilegt andlát á sér stað inni á stofnuninni.

Sömuleiðis urði til leiðbeiningar um viðrunarfundi fyrir starfsfólk til að styðja við það eftir erfiðar uppákomur eða krefjandi aðstæður í starfinu, verklagsreglur um Nauðungarvistun - sjálfræðissviptingu og svo var innleiddur þjarkur (e.robot) sem tekur við upplýsingum um erlenda ferðamenn frá móttökunni og sendir gögnin sjálfkrafa til Sjúkratrygginga Íslands sem sér um innheimtu. Þjarkurinn fékk nafnið Eldborg.

Þá urðu einnig til leiðbeiningar um skráningu í afgreiðslukerfi Sögu fyrir starfsfólk utan hefðbundins opnunartíma, innleiðing á appinu ,,Care to translate” til að einfalda samskipti við erlenda sjúklinga og útkallslistar og aðrir tengiliðalistar með yfirliti yfir viðbragðsstjórn starfsfólks HSU þegar upp koma stór slys, náttúruvá eða annað sambærilegt þegar virkja þarf hópslysaáætlun

Verklögin og leiðbeiningar eru yfirfarnar á nokkurra mánaða fresti og eru aðgengilegar í gæðahandbók stofnunarinnar sem starfsfólk hefur aðgang að.

Með innleiðingu á betra verklagi og fjölgun gæðaskjala er markmiðið að stuðla að aukinni skilvirkni, samræmi og gæðum í starfsemi stofnunarinnar. Skýr og aðgengileg skjöl veita starfsfólki stuðning í daglegu starfi og tryggja að verklag sé í samræmi við viðurkenndar kröfur og markmið.